Stjórn Skógræktarfélags Íslands, góðir aðalfundarfulltrúar og gestir.

Fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar býð ég ykkur velkomin til bæjarins. Þetta er sennilega einn fjölmennasti fundur sem haldinn hefur verið hér í Grundarfirði og alveg örugglega sá fjölmennasti í þessum sal. Vonast ég til að ykkur gangi vel í störfum ykkar á þessum fundi.

Fundurinn er haldinn í þessum húsakynnum Fjölbrautaskóla Snæfellinga, skóla sem við Snæfellingar eru afskaplega stoltir af. Skólinn tók til starfa haustið 2004 eftir aðeins um eins árs byggingartíma. Húsnæðið er eigu fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi, þ.e. Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar, Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar. Fyrir okkur er þetta húsnæði ekki aðeins skóli sem hefur gerbreytt skilyrðum ungs fólks til náms, og þar með lífsgæðum okkar, heldur er þetta ekki síður áþreifanlegt tákn um að hið ómögulega er ekkert ómögulegt. En það var fjarlægur draumur í upphafi að reisa þennan skóla.

 

Eins og þið sjáið er skólinn með öðru sniði en algengast er. Þetta er skóli sem býður upp á sveigjanlegt og nýstárlegt námsfyrirkomulag þar sem námsrýmin eru opin og allt nám er skipulagt með aðstoð kennslukerfis. Frá fyrsta degi hefur hann verið leiðandi í breyttum kennsluháttum og í nýtingu á upplýsingatækni í skólastarfi.

Litið er á öll hin ólíku rými í skólanum sem námssvæði þar sem ýmist geta verið nemendahópar í vinnu undir stjórn kennara, nemendur að vinna verkefni einir eða í hópum, með eða án aðstoðar kennara, eða nemendahópar að fylgjast með hefðbundnum fyrirlestri frá kennara, sem annað hvort er á staðnum eða miðlar fyrirlestrinum í gegnum eitthvert form upplýsingatækninnar.

Skólinn hefur einnig farið í útrás og rekur hann framhaldsdeild á Patreksfirði. Námsfyrirkomulag skólans gerir þetta mögulegt.

Við förum því hiklaust ótroðnar slóðir og hið ómögulega finnst okkur sérlega áhugavert að glíma við.

Það voru líka ótroðnar slóðir sem frumkvöðlar í trjárækt í Grundarfirði fóru fyrir nokkrum áratugum. Ég get ekki látið þetta tækifæri frá mér fara án þess að þakka þeim fyrir þrautseigju og ósérhlífni. Starf þeirra er mikils metið þó sjaldan sé þess getið.

Sannleikurinn er sá að þeir sem hafa staðið að skógrækt hér í Grundarfirði er fólk sem ber mikinn hlýhug til staðarins og náttúrunnar. Starf þessa fólks er óeigingjarnt og yfirleitt vanmetið fyrr en jafnvel mörgum áratugum síðar, Þegar árangur af starfi þeirra blasir við. Þá eru frumkvöðlarnir gjarnan löngu farnir að sinna ræktun á öðrum stöðum og erfitt að þakka þeim starf þeirra.

Víða á Snæfellsnesi háttar þannig til, að jarðvegur er grunnur og næringarsnauður, vindálag er mikið og er trjáræktaráhugi fór að aukast fyrir mörgum áratugum, var ekki talið ráðlagt að reyna trjárækt hér. Þeir sem reyndu fyrir sér með trjárækt, voru taldir sérvitringar. En árangurinn hefur sýnt annað.

Í Grundarfirði getur stundum blásið hressilega í sunnan og suðaustlægum áttum og það eru engir aukvisar sem festa hér rætur, hvort sem það er fólk eða gróður.

Tíminn hefur leitt í ljós að staðir sem áður voru taldir vonlausir til trjáræktar, eru ekki aðeins mögulegir til skógræktar heldur hefur skógræktin beinlínis bætt lífsskilyrði á staðnum, bæði fyrir fólk sem og annað lífríki.

Árið 2004 samþykkti bæjarstjórn að taka þátt í skógrækt með það að markmiði að mynda skjólbelti og útivistarsvæði fyrir ofan þéttbýlið, eins konar grænan trefil sem skapaði aðlaðandi vettvang til útivistar. Nokkuð langt er í land með að þessu verki verði lokið en menn þurfa ekki annað en að líta í kringum sig til að sjá að ásýndin hefur þegar breyst til hins betra hér fyrir ofan bæinn og þó endanlegt markmið sé fjarlægur draumur, mun fólk dag einn horfa yfir fallegan skóg sem skýlir bænum.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að trjárækt hefur ýtt undir og vakið fólk til vitundar um umhverfismál almennt.

 

 

Náttúruvernd er okkur Snæfellingum ofarlega í huga enda búum við hér í einstaklega fjölbreyttri og fagurri náttúru. Snæfellingar hafa verið frumkvöðlar í náttúruvernd í áratugi.

Í upphafi sjöunda áratugarins voru það sjómenn og útgerðarmenn við Breiðafjörð sem ákváðu að vernda lífríki sjávarins með því að banna veiðar á tilteknum svæðum á Breiðafirði.

Undanfarið hefur verið unnið að því að stofna svokallaðan svæðisgarð á Snæfellsnesi sem er afskaplega áhugavert verkefni sem lýtur að fjölþættu samstarfi sveitarfélaga, fyrirtækja, félaga og samtaka á svæði sem myndar samstæða landslags- og menningarlega heild. Þessi áhugaverða hugmynd verður ykkur kynnt nánar hér á aðalfundinum.

Í vor samþykkti bæjarstjórn að bjóða íbúum upp á aukna sorpflokkun og var tekið upp svokallað þriggja tunnu kerfi. Það er stefna Grundarfjarðarbæjar að minnka úrgang í sveitarfélaginu og draga úr magni sorps sem fer til urðunar. Markmiðið er að lífrænt sorp fari til moltugerðar sem nýtist bæjarbúum, endurnýjanlegt sorp fari í endurvinnslu og urðun sorps minnki um 60-80%.

Sveitarfélög á Snæfellsnesi voru þau fyrstu í Evrópu til að hljóta umhverfisvottun EarthCheck, sem áður kallaðist Green Globe, og fjórða svæðið í heiminum til að ná slíkum árangri.

EarthCheck staðallinn fyrir samfélög byggir á ábyrgri stjórnun og sjálfbærri þróun. Staðallinn veitir samfélögum ramma til þess að mæla frammistöðu sína og vinna að stöðugum úrbótum í umhverfis- og samfélagsmálum.

Munur á þessari vottun og Staðardagskrá 21, sem mörg sveitarfélög starfa eftir, er sá að í Staðardagskrá 21 er sveitarfélögunum alveg í sjálfsvald sett hvaða áherslum er fylgt og hversu hratt breytingar eru gerðar.

EarthCheck er hins vegar umhverfisvottun óháðra aðila sem er betri aðferð til umhverfisúrbóta að okkar mati.

 

Ágætu fundarmenn.

Það er okkur mikil hvatning að Skógræktarfélag Íslands haldi aðalfund sinn að þessu sinni í Grundarfirði.

Ég býð ykkur öll aftur velkomin til Grundarfjarðar og vona að fundurinn verði áhugaverður og upplýsandi og að dvölin hér verði ykkur jafnframt ánægjuleg.