Þjóðvegur 54, Snæfellsnesvegur, rétt vestan við þéttbýlið í Grundarfirði. Mynd: Tómas Freyr Kristján…
Þjóðvegur 54, Snæfellsnesvegur, rétt vestan við þéttbýlið í Grundarfirði. Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson, febrúar 2025.

Á 299. fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 8. maí 2025 var enn og aftur rætt um ástand þjóðvega á Snæfellsnesi, sjá fundargerð og fylgigögn málsins hér.

Bæjarstjórn bókaði eftirfarandi: 

Enn ræðir bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar um samgöngumál og ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar, þar sem ástandið hefur aldrei verið verra. Á það ekki síst við í næsta nágrenni Grundarfjarðar, á Snæfellsnesi og langleiðina suður í Borgarnes.

Bæjarstjórn hefur margsinnis gert athugasemdir við hættulegt ástand þjóðvegarins. Fyrr á þessu ári sendu sveitarstjórnir á Vesturlandi ákall til forsætisráðherra og innviðaráðherra um að brýn þörf væri til að bregðast strax við bágbornu ástandi tiltekinna vegarkafla, með neyðarfjárveitingu í allra brýnustu viðgerðirnar, til að tryggja íbúum, atvinnulífi og ferðafólki lágmarks öryggi á vegunum.

Bæjarstjórn þakkar ráðherrunum fyrir að hafa brugðist hratt við ákalli sveitarstjórnarfólks á Vesturlandi og boðið til fundar 10. mars sl. þar sem tækifæri gafst til þess að ræða þessi mál. Engin svör eða viðbrögð hafa þó borist við erindi sveitarstjórna á Vesturlandi síðan og lýsir bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar vonbrigðum sínum með það.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ítrekar fjölmargar fyrri bókanir sínar um ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga. Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.

Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega. Í þeim liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt.

Í febrúar sl. þurfti Vegagerðin að moka tjöru af „blæðandi“ þjóðvegum á Snæfellsnesi. Fjölmargir akandi vegfarendur urðu fyrir óþægindum og tjóni á ökutækjum sínum, vegna ástands þjóðveganna, þegar þykk tjara lagðist á hjólbarða og aðra fleti bifreiða. Slíkt er ekki einungis hvimleitt, heldur er umferðaröryggi stórlega ógnað í slíku ástandi, auk þess sem það veldur eigendum ökutækja fjárhagstjóni. Viðbúið er að slíkt ástand geti skapast aftur eins og ástand umræddra vega er.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ítrekar fyrri óskir um stóraukna fjármuni til nauðsynlegra viðgerða og viðhaldsframkvæmda á þjóðvegi 54.

Samþykkt samhljóða.

Ályktun bæjarstjórnar verður komið á framfæri við innviðaráðherra og forsætisráðherra. 

--- 

Hér má nálgast myndasafn Snæfellinga sem sýnir ástand þj´´oðvegar 54, Snæfellsnesvegar, og fleiri vega á svæðinu. 

Hér má nálgast umræðu og fjölmargar bókanir bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar um ástand þjóðveganna

Ályktun aðalfundar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, 26. mars 2025 um vegamál, frétt SSV. 

Sveitar- og bæjarstjórar á Vesturlandi funda með forsætisráðherra og innviðaráðherra 10. mars 2025, frétt SSV.