Á bæjarstjórnarfundi í gær, 18. desember var samþykkt eftirfarandi ályktun sem kallar eftir tafarlausum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar þorskveiðikvótans:

“Bæjarstjórn Grundarfjarðar kallar eftir tafarlausum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta fjárhagsstöðu Grundarfjarðarbæjar sem sér fram á tekjumissi vegna ákvörðunar um að skerða þorskveiðar um þriðjung.

Í mörg ár hafa fulltrúar sveitarfélaga rætt um að þau þyrftu meira fé til að framfylgja skyldum og verkefnum sínum í nútíma samfélagi.  Allra síðustu ár hefur komið enn skýrar í ljós mikill aðstöðumunur sveitarfélaga á landsbyggðinni samanborið við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Sérstök framlög úr Jöfnunarsjóði duga skammt til að leiðrétta þetta ójafnvægi. Ríkið stendur ekki við sínar skuldbindingar t.d. um að greiða 60% í uppbyggingu framhaldsskóla og umframkostnaður lendir á sveitarfélögum.

Við þessar fjárhagslegu aðstæður koma áhrif 30% skerðingar þorskaflans mjög harkalega fram hjá  Grundarfjarðarbæ og sveitarfélögum sem byggja á sjósókn og vinnslu sjávarafurða.

Ríkisstjórnin hefur enn ekki greint frá því hvernig sveitarfélögum verði bætt tekjutap vegna niðurskurðarins og hingað til hafa mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar siglt stóran sveig fram hjá Grundarfirði. 

Við gerð fjárhagsáætlunar Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2008 var allt kapp lagt á að halda þjónustu við íbúa óbreyttri og hækka gjaldskrár í samræmi við verðbólgu.  Bæjarsjóður getur ekki sótt meiri tekjur til íbúa sem sjálfir sjá jafnvel fram á lægri tekjur.

Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil.”