Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 11. september sl. var rætt um vandræði sem höfðu verði þann dag vegna rafmagnsleysis í bænum og nærsveitum.  Straumrof með tilheyrandi tjóni fyrir framleiðslufyrirtæki og alla aðra starfsemi þykja vera of tíð og eigi sér ekki eðlilegar skýringar í ófyrirséðum bilunum.  Bæjarstjórnin setti fram eftirfarandi kröfur:

"Áskorun til iðnaðarráðherra, stjórnar Landsnets hf. og stjórnar RARIK ohf.:

Bæjarstjórn Grundarfjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum af afhendingaröryggi rafmagns í Grundarfirði í ljósi síendurtekins rafmagnsleysis. Bæjarstjórn krefst þess að RARIK ohf. og Landsnet hf. láti nú þegar gera úttekt á flutnings- og dreifikerfi rafmagns í Grundarfirði og geri viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í bæjarfélaginu."