Á janúarfundi bæjarstjórnar var í kvöld samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2003 fyrir bæjarsjóð og fyrirtæki hans. Á næstunni verður sagt frá því hér í bæjardagbók hvað í áætluninni felst, í hvaða framkvæmdir eða fjárfestingar á að ráðast á árinu, o.s.frv.

Áætlunin var nú unnin með aðeins öðru sniði en áður, eins og sagt var frá í bæjardagbók þann 17. október 2002.

 

Bæði var fyrirkomulag vinnunnar í bæjarráði og hjá starfsmönnum breytt frá því sem áður var, en auk þess var unnið eftir nýjum reglum um bókhald sveitarfélaga. Þessar reglur gera það að verkum að ýmis fyrri viðmið eru úrelt, s.s. um það hvað flokkast undir rekstur og hversu hátt hlutfall rekstur er af heildarútgjöldum. Breytingarnar ollu því að fjárhagsáætlunarvinnan varð töluvert flóknari og bæjarstjórn og starfsmenn þurftu að leggja þó nokkuð á sig til að komast inn í hinn nýja þankagang bókhaldsreglnanna. Engu að síður gekk vinnan greiðlega fyrir sig.

 

Milli fyrri og síðari umræðu var farið í nokkrar breytingar skv. tillögum og settar fram ,,sparnaðarleiðir” í rekstri. Fleiri slíkar tillögur liggja fyrir til úrvinnslu og til eftirfylgni hjá starfsmönnum bæjarins.

 

Á fundinum var einnig samþykkt að taka jákvætt í hugmyndir um að sveitarfélögin á Snæfellsnesi og ýmsir hagsmunaaðilar leggi sameiginlega  í vinnu við stefnumótun í ferðamálum á svæðinu.

Sú hugmynd er reifuð í skýrslu Atvinnuráðgjafar Vesturlands (ATSSV), sem unnin er af Ásthildi Sturludóttur, ferðamálafulltrúa ATSSV í nóvember 2002. Skýrslan segir frá því sem helst er ábótavant í umhverfi ferðaþjónustunnar á svæðinu og ýmsu sem óhjákvæmilega tilheyrir þjónustu við ferðafólk. Stefnumótun er talin nauðsynleg til að leggja áherslur og forgangsraða verkefnum, og til að stilla saman strengi allra þeirra sem að þessum málum koma.