Á 107. fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar þ. 10. september 2009 var eftirfarandi samþykkt:

„Bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkir samhljóða að óska eftir viðræðum við  sveitarfélög á Snæfellsnesi um sameiningu sveitarfélaganna.

      

Greinargerð:

Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga.  Árið 2005 var tillögu um sameiningu sveitarfélaga á svæðinu hafnað í kosningum. Þá þegar var þó ljóst að umræða um þessi mál yrði tekin upp síðar og jafnvel fyrir lok þessa kjörtímabils.

 

Í kjölfar gjörbreyttra aðstæðna  í efnahagsumhverfinu hafa sveitarfélög gert fjölmargar ráðstafanir til að lækka kostnað, án þess þó að skerða grunnþjónustu. Sameining sveitarfélaga á Snæfellsnesi gæti verið liður í þeim aðgerðum og um leið styrkt samfélögin.“

 

Samkvæmt þessari samþykkt verða öðrum sveitarfélögum á Snæfellsnesi send tilmæli um viðræður um sameiningarmál.