Skessuhorn 17. febrúar 2010:

Almennur baráttufundur um sjávarútvegsmál verður í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík á fimmtudagskvöldið og hefst klukkan 20:30. Víðtæk samstaða er um boðun fundarins en að honum standa fulltrúar Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar, Stykkishólmsbæjar, Smábátafélagsins Snæfells, Útvegsmannafélags Snæfellsness og Verkalýðsfélags Snæfellinga.  Í tilkynningu segir að kastljósum verði einkum beint að þeim efnahags- og samfélagslegu áhrifum sem ríkjandi óvissa um framtíðarskipan í sjávarútvegi hefur. Hún setji mark sitt á fiskvinnslufyrirtækin, fiskvinnslufólk, smábátaútgerðir og yfirleitt allt mannlíf í byggðarlögum á Snæfellsnesi. Þarna vegi þungt hugmyndir um svokallaða fyrningarleið.

Bein vefútsending verður af fundinum á heimasíðu Snæfellsbæjar. Ræðumenn verða: Erla Kristinsdóttir fiskverandi í Rifi, Þorsteinn Sigurðsson, varaformaður Verkalýðsfélags Snæfellinga, Rósa Guðmundsdóttir verkstjóri í fiskvinnslu í Grundarfirði, Kristín Björk Gilsfjörð sjómannskona á Hellissandi, Heiðar Magnússon útgerðarmaður í Ólafsvík, Guðbjartur Hannesson formaður starfshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun og Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Fundarstjóri verður Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri í Stykkishólmi.