Eftir að hafa slegið lið Höfrungs frá Þingeyri út úr forkeppni Visabikarsins þá mætti lið Grundarfjarðar 3ju deildarliði Snæfells úr Stykkishólmi á Grundafjarðarvelli þann 17. maí síðastliðinn.

 

Nokkrar breytingar þurfti að gera á byrjunarliði Grundarfjarðar sökum meisla, veikinda og utanlandsferða leikmanna svo fátt eitt sé nefnt.  Liðið sem hóf leikinn var þannig skipað:  Davíð Hansson Wíum var markvörður og vaktina í vörninni stóðu þeir Jón Frímann Eiríksson, Kristinn Óli Hallsson, Aðalsteinn Jósepsson og Olgeir Pétursson.  Á miðjunni léku Haukur Tómasson, Daníel Freyr Gunnarsson, Hafliði G. Guðlaugsson og Karvel Steindór Pálmason en frammi voru Davíð Stefánsson og Valur Tómasson.  Á bekknum voru Tómas Freyr Kristjánsson, Haraldur Hallsteinsson, Baldur Már Vilhjálmsson, Bjartmar Pálmason og Rúnar Geirmundsson en um liðstjórn sá Arnar Guðlaugsson.

Leikurinn hófst við flottar knattspyrnuaðstæður og Grundfirðingar voru sterkari til að byrja með.  Það var því talsvert gegn gangi leiksins að Snæfell komst yfir úr sinni fyrstu alvöru sókn þegar þeir sluppu í gegnum vörnina.  Heimamenn létu það ekki á sig fá og héldu undirtökunum áfram og settu tvo mörk fyrir leikhlé.  Davíð Stefánsson jafnaði leikinn með skallamarki og Daníel Freyr Gunnarsson kom Grundfirðingum síðan yfir með laglegu skoti utan teigs.  Ekki náðu heimamenn að halda forystunni inn í hléið því Snæfellingar jöfnuðu eftir hornspyrnu og staðan í hálfleik því 2:2.  Síðari hálfleikurinn var rétt nýhafinn þegar Snæfell fékk vítaspyrnu eftir að markvörður heimamanna var dæmdur brotlegur.  Þeir skoruðu úr henni og því komnir með 2:3 forystu en sú forysta varði þó ekki lengi því Valur Tómasson jafnaði leikinn í 3:3.  Það sem eftir lifði venjulegs leiktíma voru heimamenn sterkari aðilinn en náðu ekki að skora, gestirnir fengu þó færi til að stela sigrinum undir lok leiksins en náðu ekki að nýta þau.  Lokastaðan var því 3:3 og framlenging niðurstaðan, önnur hjá heimamönnum á tæpri viku.  Á þessum tímapunkti var farið að blása allhressilega og rigning að auki svo aðstæðurnar voru orðnar talsvert erfiðari.  Grundfirðingar sóttu nær látlaust í framlengingunni og uppskáru loksins eftir því í síðari hálfleik hennar þegar Baldur Már Vilhjálmsson náði að skora.  Þætti Baldurs var ekki lokið því hann fékk síðar rautt spjald undir lokin eftir umdeilanleg viðskipti við leikmann Snæfells.  Einum manni færri héldu heimamenn út og sigruðu því 4:3.

 

Lið UMFG er því komið í 2. umferð Visabikarins og eru liðsmenn þess eina utandeildarliðið sem er komið svona langt.  Næstu mótherjar liðsins er Afturelding og verður sá leikur spilaður í Mosfellsbæ þann 31. maí.  Lið Aftureldingar er í toppbaráttunni í 2. deild og því ljóst að framundan er gríðarlega erfiður leikur fyrir liðsmenn Grundarfjarðar en mjög spennandi verkefni enga síður. 

 

Davíð Hansson Wium og Tómas Freyr Kristjánsson