Björg Ágústsdóttir verður nýr bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar. Tillaga um ráðningu hennar í starfið var samþykkt samhljóða á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar í dag. Björg mun hefja störf 9. ágúst næstkomandi. Tekur hún við starfinu af Þorsteini Steinssyni, sem hefur verið bæjarstjóri undanfarin fjögur ár, eða frá árinu 2014.

Björg er Grundfirðingur, lögfræðingur að mennt, með mastersgráðu í verkefnastjórnun, MPM, og diplóma í opinberri stjórnsýslu og stjórnun. Björg var bæjarstjóri í Grundarfirði á árunum 1995-2006. Hún hefur frá árin 2006 starfað hjá Ráðgjafarfyrirtækinu Alta með aðsetur í Grundarfirði. Björg hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum samhliða störfum sínum, bæði á vettvangi sveitarstjórnarmála og nú síðari árin m.a. í íþróttastarfi og í skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Hún hefur auk þess kennt stefnumótun o.fl. á styttri og lengri námskeiðum.

Í bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar sitja sjö bæjarfulltrúar. D-listi Sjálfstæðisflokks og óháðra fékk meirihluta atkvæða í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og fjóra menn kjörna. L-Listi, Samstaða – listi fólksins, hlaut þrjá menn kjörna.

Á fundi bæjarstjórnar var Jósef Kjartansson, oddviti D-listans, kjörinn forseti bæjarstjórnar og Hinrik Konráðsson, oddviti L-listans, varaforseti.

Rósa Guðmundsdóttir, D-lista verður formaður bæjarráðs og Hinrik verður varaformaður. Kosið er til eins árs í senn.