Hið árlega öldungamót Blaksambands Íslands var haldið í Vestmannaeyjum dagana 5. - 7. maí. Blakarar 30 ára og eldri eru löglegir keppendur á þessu móti. 

Það voru um 1000 keppendur sem mættu til leiks og var það met þátttaka.  Alls var spilað í 6 karladeildum og 12 kvennadeildum. Blakdeild UMFG sendi 3 lið, 2 kvennalið og 1 karlalið. Kvennaliðin spiluðu í 4. deild og 9. deild en karlaliðið í 3. deild.

Bæði kvennaliðin komust upp úr sinni deild en karlaliðið verður áfram í 3. deild.

UMFG A kvenna spilaði í 4. deild og lenti í 2. sæti og spilar því í 3. deild á næsta ári. UMFG B kvenna vann alla sína leiki og lenti í 1. sæti og mun spila í 8. deild á næsta ári.

Þjálfarar kvennadeildar eru mjög ánægðir með gott gengi kvennablaksins í vetur. Alls hefur þremur bikurum verið landað, Íslandsmeistaratitli,  Héraðsmeistaratitli og deildarmeistaratitli á öldungamóti.

Við óskum blökurum til hamingju með árangurinn.