Í tilefni af áttatíu ára afmæli Bókasafns Grundarfjarðar er gestum hátíðarinnar Á góðri stund velkomið að skoða safnið föstudaginn 25. júlí n.k. Kynna sér sögu þess og skoða útsýnið af svölum hússins sem sagt er vera eitt hið fegursta úr nokkru húsi í Grundarfirði. Ennfremur mun Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla taka við munum úr búi sr. Jens Hjaltalín til varðveislu. Athöfnin hefst kl. 15:00.
 

Árið 1923 gekkst Ungmannafélagið í Eyrarsveit fyrir stofnun bókasafns sem fékk nafnið Lestrarfélag Eyrarsveitar. Það var rekið sem sjálfstæð stofnun og fylgdi umsjónarmönnum sínum milli húsa.
Árið 1939 tók Ungmennafélagið við rekstrinum og nefndi það Bókasafn U.M.F. Grundfirðinga.
Eftir breytingu á lögum frá alþingi færðist reksturinn til sveitarinnar og nefndist það Bókasafn Eyrarsveitar þar til sveitarfélagið fékk nýtt stjórnsýsluheiti árið 2001 að það fékk núverandi nafn sitt, Bókasafn Grundarfjarðar.

Á heimasíðu bókasafnsins er hægt að fræðast um sögu safnsins undir krækjunni Saga bókasafnsins. Settur verður upp bókamarkaður á hátíðinni þar sem hægt er að kaupa aukabækur af safninu og bækur og tímarit sem gefendur hafa leyft okkur að selja til ágóða fyrir bókasafnið.