Þá er hinu árlega Borgarnesmóti í fótbolta lokið. Grundfirðingar fóru með 4 lið: 2 kvennalið, annað í 5. flokki og hitt í 4. flokki. Og svo 1 lið í 6. flokki og 1 í 7. flokki.

Krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði og sérstaklega á laugardeginum þegar veðrið var hreint ömurlegt, grenjandi rigning og rok. En þau létu það auðvitað ekki á sig fá og spiluðu leikina sína vel.

7. flokkur gerði sér lítið fyrir og sigraði mótið með glæsibrag í hörkuspennandi úrslitaleik á móti Víkingi Ólafsvík 2- 0.  6. flokkur spilaði svaka spennandi úrslitaleik á móti Ólafsvík og á síðustu sekúndu leiksins jafnaði María Rún leikinn 1-1, þannig að úr varð framlenging sem endaði 1-1, og allt stefndi í vítaspyrnukeppni.

Ákveðið var að láta ekki  þessa ungu og efnilegu leikmenn fara í vítaspyrnukeppni til að útkljá leikinn svo þessi heiðursleikmenn sömdu um jafntefli og deildu 1. sætinu í 6. flokki. 5. flokkur kvenna spilaði um 3. sætið á mótinu og gerðu þær jafntefli svo úr varð framlenging sem endaði enn jafnt, og mótherjarnir voru með heimavallarrétt sem tryggði þeim 3. sætið. 4. flokkur kvenna lenti svo í 4. sætinu. Þetta var hin besta helgi og skemmtu allir sér konunglega.