Börn ársins 2020 // Dzieci urodzone w roku 2020

Á gamlársdag var börnum ársins 2020 fagnað.

Frá árinu 2006 hafa nýfædd börn í Grundarfirði verið boðin velkomin í heiminn með gjöfum frá sveitungum sínum. Það er Grundarfjarðarbær í samstarfi við Leikskólann Sólvelli, Heilbrigðisstofnun Vesturlands Grundarfirði, Slysavarnadeildina Snæbjörgu og annarra sem að þessu standa.

Hverju barni er færð vegleg gjöf sem inniheldur hlýjan fatnað, tannbursta, bækur og bækling frá leikskólanum, auk þess sem með fylgja leiðbeiningar til foreldra, t.d. gátlisti um öryggi barna á heimili og ýmislegt annað sem kemur að góðum notum fyrir barn og foreldra.

Gjöfin hefur verið kölluð “sængurgjöf samfélagsins” og er hluti af fjölskyldustefnu Grundfirðinga, sem sett var 2006. Hugmyndin átti þá rætur sínar að rekja til Finnlands, þar sem tíðkast hafði að gefa börnum hagnýtar gjafir í kassa sem mátti síðan breyta í vöggu.

“Í okkar litla samfélagi skiptir hver einstaklingur miklu máli. Þetta er sú leið sem okkar samfélag fer til að bjóða nýjustu íbúana sérstaklega velkomna. Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp barn. Þannig er þetta líka hugsað til að minna okkur öll á gildi þess að hlúa hvert að öðru, ekki síst börnunum, til að rækta gott samfélag”, segir bæjarstjóri.

Vegna sóttvarna, var að þessu sinni ekki haldið samsæti í Sögumiðstöðinni fyrir börn ársins og fjölskyldur þeirra. Björg bæjarstjóri og Anna leikskólastjóri fóru í göngutúr á gamlársdag og færðu foreldrum barnanna gjafir og heillaóskir.

Í Grundarfirði búa nú fjögur börn fædd árið 2020, þrír drengir og ein stúlka. Við óskum foreldrum þessara barna innilega til hamingju!