Í Grundarfirði eru nýfædd börn boðin velkomin í heiminn með gjöfum frá sveitungum sínum. Á Gamlársdag var haldið samsæti í Sögumiðstöðinni fyrir börnin sem fæddust á árinu 2018 og foreldra þeirra, en í árslok búa hér 10 börn fædd á árinu, 6 drengir og 4 stúlkur. Sú elsta fæddist 14. mars og sá yngsti er rétt um 2ja vikna gamall.

Frá 2006 hefur Grundarfjarðarbær í samstarfi við Leikskólann Sólvelli, Heilbrigðisstofnun Vesturlands Grundarfirði, Slysavarnadeildina Snæbjörgu og stundum fleiri aðila, staðið fyrir “sængurgjöfum samfélagsins”. Hverju barni eru færð að gjöf hagnýtur fatnaður, tannbursti, bækur og bæklingur frá leikskólanum,  auk þess sem með fylgja endurskinsmerki og leiðbeiningar til foreldra, t.d. gátlisti um öryggi barna á heimili.

Gjöfin hefur verið kölluð “sængurgjöf samfélagsins” og er hluti af fjölskyldustefnu Grundfirðinga. Stefnan var samþykkt 2006 en í haust setti bæjarstjórn einmitt af stað endurskoðun hennar.  “Í okkar litlu samfélögum skiptir hver einstaklingur miklu máli. Þetta er sú leið sem okkar samfélag fer til að bjóða nýjustu íbúana sérstaklega velkomna. Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp barn og þetta er hluti af því”, segir bæjarstjóri.

Ætlunin gefendanna er að Gamlársdagur verði framvegis nýttur til að fagna börnum hvers árs.