Eins og lesendur Grundarfjarðarvefsins hafa eflaust tekið eftir hefur Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða gengið erfiðlega að bora vinnsluholu fyrir hitaveitu á síðastliðnum vikum. Bor Ræktunarsambandsins lenti í mjög hörðum jarðlögum, sem kallast Gabbró, og urðu afleiðingarnar þær að borstangir brotnuðu ofaní jörðinni á borstaðnum við Berserkseyri.

 

Undanfarið hafa bormenn unnið að því að ná brotnum stöngum upp úr borholunni, en borunin hefur eins og áður segir gengið mjög erfiðlega og ekkert verið borað síðan 18. apríl sl.

 

Borflokkurinn fór af svæðinu í gær og er að láta yfirfara stangir og ýmsan búnað en að sögn borstjórans verður gerð lokatilraun við að ná brotnum stöngum upp á miðvikudag í næstu viku áður en gripið verður til annarra aðgerða.

Dýpt holunnar stendur enn í 554 metrum.