Frétt á vef Skessuhorns 22. desember 2009:

Föstudaginn 18. desember brautskráði Fjölbrautaskóli Snæfellinga 12 nemendur, alla með stúdentspróf.  Af náttúrufræðibraut útskrifuðust þau Hafdís Guðrún Benediktsdóttir og Njáll Gunnarsson. Af félagsfræðabraut Ágúst Ingi Guðmundsson, Ása Gunnarsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Magnús Már Leifsson, Maria Joao de Jesus Neves, Ólöf Rut Halldórsdóttir, Steinunn Alva Lárusdóttur og Unnur Lára Ásgeirsdóttir. Tveir nemendur útskrifuðust með viðbótarnám til stúdentprófs; þau Edda Baldursdóttir og Tómas Freyr Kristjánsson. 

Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Maria Joao de Jesus Neves og fékk hún veglega bókagjöf sem Snæfellsbær gaf. Maria Joao hlut einnig verðlaun fyrir góðan árangur í félagsfræði og sálfræði, gefin af Snæfellsbæ og Stykkishólmsbæ. Fyrir góðan árangur í sagnfræði fékk Ólöf Rut Halldórsdóttir verðlaun, gefin af Snæfellsbæ. Edda Baldursdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í sálfræði gefin af Gámaþjónustu Vesturlands.  Fyrir góðan árangur í líffræði fékk Njáll Gunnarsson verðlaun og voru þau gefin af Náttúrustofu Stykkishólms. Einnig fékk Magnús Már Leifsson viðurkenningu fyrir störf sín í þágu nemendafélagsins gefin af  Fjölbrautaskóla Snæfellinga.  

Útskriftarathöfnin hófst á því að Ólöf Rut Halldórsdóttir útskriftarnemi og Sylvía Ösp Símonardóttir nemandi í FSN fluttu nokkur jólalög á flygil og þverflautu. Skólameistari, Skúlína Hlíf Kjartansdóttir brautskráði nemendur og flutti ávarp. Hreinn Þorkelsson kennari kvaddi síðan nemendur fyrir hönd starfsfólks. Áður en þessari hátíðlegu athöfn lauk flutti síðan Magnús Már Leifsson ræðu fyrir hönd nýstúdenta og kvaddi þar með skólann og starfsfólkið. Að dagskrá lokinni sleit skólameistari samkomunni og bauð upp á kaffiveitingar í boði Fjölbrautaskóla Snæfellinga.