Eins og bæjarbúar hafa tekið eftir standa yfir framkvæmdir í húsnæði Sögumiðstöðvarinnar.  Undanfarin 10 ár hefur verið unnið þarna mikið frumkvöðlastarf sem Ingi Hans Jónsson hefur leitt.

 

Sögumiðstöðina hafa sótt þúsundir ferðamanna í gegnum árin en óbreyttur rekstur var ekki sjálfbær.  Eftir miklar vangaveltur um stöðu og möguleika Sögumiðstöðvarinnar var tekin sú ákvörðun að efla hana sem menningarmiðstöð. Að þeirri stefnumótun kom stjórn Eyrbyggju-Sögumiðstöðvar og bæjarstjórn. Menningarmiðstöðin á að hafa það lykilhlutverk að íbúar Grundarfjarðar líti á hana sem stað fyrir fjölbreytta félagsaðstöðu.

Arkitektar frá Glámu/Kím voru fengnir til að teikna nýtt útlit. Hér má sjá útlitsteikningar sem þeir lögðu til og samþykkt var að fara eftir í öllum meginatriðum.

 

Nýr inngangur verður fyrir miðju hússins en þó er hann ekki svo nýr, því þetta er gamli inngangurinn í húsið. Hann verður endurnýjaður og einnig verður lagt í nokkrar viðhaldsframkvæmdir.

Við breytingarnar reyndist óhjákvæmilegt að fjarlægja litla bærinn en hugmyndir eru uppi um stækkun hússins sem eykur sýningarrými til mikilla muna. Áætlanir gera ráð fyrir að bærinn eða sambærileg sýning verði endurbyggð í tengslum við stækkun hússins. Áfram verður því rými í húsinu fyrir sýningar tengdar sögu Grundarfjarðar.

Tekin var ákvörðun um að flytja bókasafnið í hina nýju menningarmiðstöð. Ávinningur af því væri bæði fyrir húsið og bókasafnið. Þannig væri mögulegt að hafa lengri opnunartíma á bókasafni og starfrækja „bókakaffi“. Bókasafnið verður í miðrými og þó að hillumetrum bókasafnsins muni fækka nokkuð verður safnkostur sá sami og áður en bækur sem hreyfast minna verðar hafðar í aðgengilegri geymslu.

Við þessar breytingar var horft til þess að aðstæður hafa breyst í þjóðfélaginu. Erfitt er að sækja opinbera styrki til menningarstarfsemi og frekari aðkoma sveitarfélagsins að rekstrinum var nauðsynleg. Til að nýta fjármuni sveitarfélagsins sem best var brýnt að tengja starfsemina annarri þjónustustarfsemi, t.d. bókasafni , upplýsingamiðstöð og samfélagsmiðstöð. Bæringsstofa verður áfram í húsinu og áætlanir gera ráð fyrir að myndir Bærings fái veglegan sess í menningarmiðstöðinni.

Stefnt er að því að húsið verði starfrækt allt árið og í sumar verður rekin þarna upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn eins og áður.

Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag verður lögð fram tillaga um að nafn hússins verði „Menningarmiðstöðin Grund“.

Útlitsteikningar