Fyrirkomulagi rekstrar á Gámasvæði bæjarins verður breytt á þessu ári.  Breytingin er gerð í þeim tilgangi að minnka kostnað við rekstur svæðisins og ennfremur og ekki síður til þess að flokka betur allt sorp sem kemur inn á gámasvæðið.  Markmiðið er að endurvinna sem mest af sorpinu og lágmarka það sorp sem fer til urðunar.

Frá 1. febrúar 2017 þurfa íbúar Grundarfjarðar klippikort til að komast inn á

gámasvæðið við Ártún.  Allir eigendur fasteigna sem greiða sorphirðugjöld fá eitt klippikort á ári frítt, sem gildir fyrir 2 m³ af gjaldskyldum úrgangi.

 

Tekið verður á móti ógjaldskyldum úrgangi án greiðslu en klippt verður fyrir gjaldskyldan úrgang. Hvert klipp gildir fyrir 0,125 m³ sem svarar til 120 ltr. eða hálfrar heimilistunnu. Á hverju korti eru 16 klipp, sem duga samtals fyrir 2 m³. Að öllu jöfnu á hvert kort að duga út árið. Klárist kort þá verður hægt að kaupa viðbótarkort á gámasvæðinu við Ártún og í Ráðhúsi bæjarins. Hvert viðbótarkort kostar 4.000 kr. árið 2017.

 

Áríðandi er að skoða vel hvaða flokkar eru gjaldfrjálsir og hverjir gjaldskyldir. Sé sorpið flokkað til samræmis við það endist kortið lengur. Með því erum við einnig að taka saman höndum um að vernda umhverfið og standa saman að málum á sem hagkvæmastan hátt. Markmiðið er að láta sem mest fara í endurvinnslu og eins lítið og mögulegt er til urðunar. Sorpgjöld eigenda íbúða eiga ekki að hækka sé hugað vel að flokkun sorpsins áður en farið er á gámasvæðið.

 

Gefinn hefur verið út bæklingur sem útskýrir þetta nánar og fylgir hann hér með, ásamt klippikorti, sem dreift er á hvern eiganda fasteignar, sem greiðir sorphirðugjöld.

 

Mikilvægt er að kynna sér vel efni bæklingsins og geyma hann á heimilinu til þess að geta skoðað á hverjum tíma hvernig best er að bera sig að þegar farið er með rusl á gámasvæðið.

 

Jafnframt er öllum bent á að varðveita vel kortið og hafa það ávallt meðferðis þegar farið er á gámasvæðið.

 

Vonast er til að þetta fyrirkomulag verði til framfara, enda þótt eflaust eigi eftir að koma upp einhverjir hnökrar í byrjun.   Þeir eru þá bara til þess að leysa þá.

 

Munum að „ Hreinn bær er okkur kær“