Ólafsvík 1843

 

Á uppstigningardag, fimmtudaginn 25. maí 2006,  kl. 15.30 hefur Norska húsið í Stykkishólmi sumarstarf sitt með því að Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður opnar sýninguna „Brot úr sögu verslunar við Breiðafjörð 1400-1900. Sýningin er hluti af verkefninu „Northern Coastal Experience” (NORCE) sem er styrkt af NPP sjóði Evrópusambandsins

 

Sýningin er opin daglega kl. 11.00-17.00 og stendur til 3. september 2006.

 

Verslun við Breiðafjörð byggir á aldagamalli hefð sem grundvallast á nálægð við mjög gjöful fiskimið og segja má að mannlíf á Breiðafirði hafi á ýmsan hátt mótast og einkennst af þeim náttúrugæðum sem svæðið býr yfir, en Breiðafjörðurinn hefur lengi verið sannkölluð matarkista, jafnt á söguöld sem síðari tímum.

 

Árið 1184 var klaustur flutt úr Flatey til Helgafells. Ekki er vitað um ástæður flutningsins en við stofnun þess styrktist mjög miðstöð á Þórsnesi og næsta nágrenni. Klaustrið eignaðist Þrándarstaði undir Jökli á fyrstu starfsárum sínum og talið er að útgerð klaustursins hafi þá þegar hafist, og fyrir miðja 14. öld átti það 15 jarðir undir Jökli. Framleiðsla á jörðum klaustursins var meiri en þurfti til að sinna brýnustu nauðsynjum og því þurfti að koma vörunum í verð. Stuðlaði þetta að aukinni utanlandsverslun og þörfin fyrir góðar hafnir varð til þess að þegar á 14. öld, spruttu upp nýir kaupstaðir á Snæfellsnesi. Með mikilli aukningu fiskveiða hófst útflutningur frá höfnum eins og Búðum, Rifi, Grundarfirði og Grunnasundsnesi.

 

Norska húsið er í eigu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla. Á miðhæð Norska hússins hefur verið sett upp heimili Árna og Önnu Thorlacius “Heldra heimili í Stykkishólmi á 19. öld”. Á jarðhæð eru sýningarsalir og Krambúð þar sem hægt er að fá vandað handverk, listmuni, minjagripi, póstkort, bækur og gamaldags nammi, gamalt leirtau og fleiri forvitnilegar vörur.Og í risinu er opin safngeymsla þar sem safngestir geta glöggvað sig á hinum miklu viðum sem húsið er byggt úr og upplifað stemmingu liðins tíma á annan hátt en á neðri hæðunum.

Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla er rekið af Héraðsnefnd Snæfellinga. Formaður hennar er Sigríður Finsen, formaður safnanefndar Héraðsnefndar er Gunnar Kristjánsson og Aldís Sigurðardóttir er forstöðumaður Byggðasafnsins.

 

Norska húsið er opið daglega í sumar kl. 11.00-17.00

                   Verið velkomin í Norska húsið