Brunavarnaráætlun 2015-2021 fyrir Grundarfjarðarbæ var undirrituð á föstudaginn 23. okt. sl. við hátíðlega athöfn í Grundarfirði.

Mannvirkjastjóri, Björn Karlsson, mætti til athafnarinnar og undirritaði áætlunina fyrir hönd Mannvirkjastofnunar, ennfremur var hún undirrituð af slökkviliðsstjóra Valgeiri Þ. Magnússyni, Þorsteini Steinssyni bæjarstjóra og Þorbirni Guðrúnarsyni fyrir hönd Eldor slf., sem kom að vinnslu áætlunarinnar.

Áætlunin er unnin á grundvelli laga um brunavarnir nr. 75/2000, en megin markmið þeirra er að vernda líf og heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja fullnægjandi eldvarnareftirlit og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi á viðkomandi þjónustusvæði.

Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaráætlun sem fengið hefur samþykki Mannvirkjastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar.

Við undirskriftina voru mættir fulltrúar slökkviliðsmanna, Mannvirkjastofnunar, byggingaryfirvalda, bæjarstjórnar og bæjarskrifstofu.

Grundfirðingum er óskað til hamingju með nýja brunavarnaráætlun.