Í 5. tölublaði , Skólavörðunnar, blaðs Kennarasambands Íslands birtist grein rituð af Sigríði Herdísi Pálsdóttur, leikskólastjóra og Matthildi Guðmundsdóttur, aðstoðarleikskólastjóra um reynslu þeirra af samstarfi leikskóla og grunnskóla í Grundarfirði.

Brúum bilið, samstarf Leikskólans Sólvalla og Grunnskóla Grundarfjarðar.

 

      Í vetur eins og síðustu ár  hafa leikskóli og grunnskóli unnið markvisst að því að brúa bilið á milli skólastiganna tveggja, til að auðvelda nemendum  skólaskiptin.    Í   byrjun september 2002 hittust skólastjóri leikskólans,  kennari elstu barna leikskólans,  og aðstoðarskólastjóri, sérkennari og kennari 1. bekkjar frá grunnskóla og settu   niður áætlun  fyrir vetrastarfið.

1.      Í  október  fór leikskólakennari í heimsókn í 1. bekk til að fylgjast með starfinu þar.  Síðan komu  grunnskólakennari  og sérkennari  til að fylgjast með starfi elstu  nemenda  leikskólans.

2.      Nemendum leikskólans var boðið í skoðunarferð um grunnskólann í janúar þar sem skólastjóri tók á móti þeim og sýndi þeim skólann.

3.      1. bekk var boðið á þorrablót í leikskólanum þar sem nemendur leikskólans skemmtu með leik og söng og boðið var upp á þorramat.

4.      Í mars voru skipti heimsóknir þ.e. helmingu af elstu nemendum leikskólans fór í grunnskólann og helmingur af nemendum 1. bekkjar kom í leikskólann og voru þessar heimsóknir með viku millibili.

5.      Leikskólanemendum var boðið á skemmtun hjá 1. bekk í grunnskólanum, þar sem vetrarstarfið var  kynnt, farið var í leiki og skemmt sér á útileiksvæðinu og í lokin voru veitingar undir berum himni.

6.      Hluti af samstarfinu var að börnin mættu í vorskóla dagana 12-16 maí  frá

kl: 13:00 - 15:00.   Og fór kennslan fram í húsnæði grunnskólans.  Þeir sem sáu um    kennsluna í vorskólanum voru leikskólakennari, væntanlegur kennari 1. bekkjar og sérkennari grunnskólans.

Í vetur var fundað reglulega um  samstarfið, það metið og síðan breytt og bætt eftir þörfum. Á lokafundinum var rætt um mikilvægi þessa samstarfs og hvað það auðveldar nemendum skólaskiptin og eykur á öryggi þeirra.  Samstarfshópurinn er ánægður með hvað vel hefur gengið að brúa bilið og heldur ótrauður áfram á sömu braut.

 

Útskrift frá leikskólanum Sólvöllum Grundarfirði  28. maí 2003

 

Miðvikudaginn 28. maí útskrifuðust elstu nemendurnir (21 barn fædd 1997)  frá leikskólanum Sólvöllum . Þar með lauk  skólagöngunni  á fyrsta skólastiginu.  Útskriftin fór fram í Samkomuhúsinu, nemendur fengu hatta sem þau höfðu málað, möppur sem innihalda ljósmyndir af þeim í leik og starfi, sjálfsmyndir og teikningar af fjölskyldum þeirra fyrir hvert ár sem þau hafa verið í leikskólanum.  Einnig verkefni sem þau hafa unnið í elstubarnastundum í vetur. Eftir útskriftina var farið í skrúðgöngu út í  veitingahúsið Kaffi 59  þar sem boðið var í  flatbökuveislu.  Daginn áður fóru þessir nemendur ásamt kennurum í útskriftaferð út í  Sandvík þar sem þau voru allan  daginn í blíðskapaveðri og undu sér við leiki sull og gönguferðir.

 

Með kveðju frá Leikskólanum Sólvöllum og Grunnskólanum í  Grundarfirði