Frétt af vef Skessuhorns  25.06.2009 

Gallerí Kind nefnist nýtt handverkshús sem opnað hefur verið í Grundarfirði. Þar verður ýmiskonar handverk til sölu og lögð áhersla á íslensku ullina. Ingibjörg Sigurðardóttir er eigandi gallerísins en hún og fjölskylda hennar eru með nokkrar kindur. Ingibjörg spinnur sína eigin ull og stefnir að því að vinna ullina frá “kind í kápu.” Rokkurinn verður því látinn snúast fyrir gesti í Gallerí Kind. Einnig verða í boði ýmsir handunnir skraut- og nytjahlutir frá fleirum en Ingibjörgu.  Opið verður frá klukkan 13 til 16 virka daga og flestar helgar yfir sumartímann. Annars er opnunartími frjáls og gestir geta banka upp á ef einhver er heima. Þá verður aukið við opnunartímann þegar skemmtiferðaskip hafa viðdvöl í Grundarfirði.