Dagur íslenska táknmálsins

Í dag 11. febrúar fögnum við degi íslenska táknmálsins í níunda sinn. Í kjölfar laga frá árinu 2011 um íslenskt táknmál og íslenska tungu var lagt til að íslenska táknmálið fengi sinn eigin dag til samræmis við dag íslenskrar tungu. Fyrir valinu varð stofndagur Félags heyrnarlausra.

Íslenskt táknmál er fyrsta mál um 2-300 Íslendinga og enn fleiri nýta sér það í daglegu lífi og tala það sem sitt annað mál. Íslenskt heyrnarlaust táknmálstalandi fólk sem lítur á táknmál sem sitt fyrsta má kallar sig döff. Að vera döff er því menningarleg skilgreining á heyrnarleysi. Döff fólk lítur oft á sig sem málminnihlutahóp fremur en fatlaða.

Lína Hrönn Þorkelsdóttir táknmálstúlkur og starfsmaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er búsett í Grundarfirði. Starfsstöð Línu Hrannar hefur verið í Grundarfirði síðustu 12 ár við fjartúlkaþjónustu í gegnum vefmyndavél en Lína hefur starfað sem táknmálstúlkur í 23 ár.

Laugardaginn 7. febrúar kynnti Landinn íslenska táknmálið. Endilega kynnið ykkur málið með því að horfa á innslagið úr þættinum og fögnum saman degi táknmálsins.

Íslenska tákmálið kynnt í Landanum

Til hamingju!