Í tilefni af Degi leikskólans í dag 6.febrúar þá langar okkur hér í leikskólanum Sólvöllum að vekja athygli á verkefni sem við höfum verið að vinna að síðastliðin tvö ár.  Verkefni þetta heitir Lífsleikni og er þróunarverkefni sem unnið var á þremur leikskólum á Akureyri í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Verkefnið byggir á 12 dygðum en þær eru: ábyrgð, áreiðanleiki, glaðværð, hjálpsemi, hófsemi, hugrekki, kurteisi, samkennd, sköpunargleði, vinsemd, virðing og þolinmæði.  Megintilgangurinn með þessari vinnu  er að gera börn og starfsfólk tamt að nota hugtökin í máli, leik og starfi.  Í handbók kennara sem fylgir verkefnapakkanum segir m.a.: „Félags-og tilfinningagreind barna er í mótun öll bernskuárin. Því er mikilvægt að byrja snemma að hlúa að og efla þá þætti með einstaklingnum.  Rannsóknir benda til að grunnurinn sé lagður að félags-og tilfinningaþroska á fyrstu árum þess.  Það er hverjum einstaklingi mikilvægt að vera læs á tilfinningar, þ.e. fær um að hafa taumhald á sér og geta sýnt umhyggju og samúð með öðrum“ (Handbók fyrir kennara. 2007. Ritstjóri: Sonja Kro. Akureyri).

 

 

Hér í leikskólanum höfum við nú þegar unnið með 6 dygðir og erum að vinna með þá 7.  Þessar dygðir eru: vinsemd, þolinmæði, hjálpsemi, glaðværð, samkennd, hugrekki og sköpunargleði.  Unnið með tvær dygðir að vetri og þeim er fléttað inn í allt daglegt starf.  Sendir eru heim dygðavísar sem eiga að auðvelda fjölskyldu barnsins þátttöku í verkefninu.  Vinnan undanfarið hefur að okkar mati gengið mjög vel, börnin nota hugtökin og eru virkir þátttakendur.  Það er von okkar að þessi vinna komi til með að hafa áhrif á innra starf leikskólans og skila okkur sterkari einstaklingum út í samfélagið (bæði nemendum og starfsfólki).

Þá viljum við líka nota tækifærið og segja frá þeirri hefð sem hefur skapast í tengslum við Bóndadag og Konudag. Á Bóndadegi bjóðum við pöbbum, öfum, bræðrum og frændum í heimsókn til okkar þar sem þeir fá tækifæri til að taka þátt í starfi barnsins og þiggja jafnvel veitingar eða gjafir.  Þessir dagur tókst glimmrandi vel núna í janúar og fengum við fjölmargar heimsóknir svo að við erum farin að hlakka til að endurtaka leikinn í tengslum við Konudaginn.

Um leið og við óskum öllum til hamingju með dag leikskólans þá viljum við jafnframt þakka fyrir samstarfið.

Kveðja, starfsfólk Leikskólans Sólvalla.