Dagur leikskólans

Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.  

Dagur leikskólans 2021 er með myllumerkið #dagurleikskolans2021

Dagur leikskólans á að vera okkur hvatning til að kynna okkur það mikilvæga starf sem þar fer fram.
Í ár, sem aldrei fyrr, er ástæða til að varpa ljósi á og þakka fyrir það frábæra starf sem starfsfólk leikskólanna hefur haldið úti á tímum Covid. 

Í tilefni dagsins var Orðsporið veitt í áttunda sinn. Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað fram úr í því að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, upplýsti 5. febrúar 2021 að handhafi Orðsporsins 2021 væri leikskólastigið. Í ávarpi sagði hún meðal annars:

"Leikskólastigið hefur staðið í ströngu undanfarið ár og mikið hefur mætt á kennurum, stjórnendum og öllu starfsfólki leikskólanna við að halda leikskólastarfi gangandi. Unnið hefur verið algjört þrekvirki á leikskólastiginu og fyrir það ber að þakka. Ég geri mér grein fyrir því að þetta hefur verið á tímum mjög erfitt. Þess vegna vil ég þakka öllum þeim sem starfa á leikskólastiginu fyrir þeirra vinnu. Þið eigið svo sannarlega skilið Orðsporið 2021."

 Frá Önnu Rafnsdóttir leikskólastjóra, í tilefni dagsins:

6. febrúar er dagur leikskólans og er hann nú haldinn hátíðlegur í 14. sinn, en þennan  dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á Dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.  Við á Sólvöllum viljum þakka foreldrum fyrir gott samstarf síðustu mánuði, allt gengur betur þegar samstarfið er gott.  Ég vil þakka starfsfólki skólans fyrir alla sína vinnu síðustu mánuði.  Allir hafa lagt sitt af mörkum til að allt  gangi upp og ýmis auka verkefni hafa bæst á hendur starfsfólks.  Við sjáum fram á bjartari tíma eins og allt samfélagið gerir þegar svona vel gengur.  Við höfum verið virkilega heppin hér í Grundarfirði og getum verið þakklát fyrir það.

Njótið dagsins og helgarinnar.

Kveðja Anna Rafnsdóttir, leikskólastjóri 

Frá Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra, á Degi leikskólans 2021:

Á árlegum degi leikskólans er viðeigandi að horfa til liðins árs, frá því við fögnuðum Degi leikskólans í febrúarbyrjun 2020. Árið hefur verið fullt af undarlegum og óvæntum áskorunum og verkefnin sem Covid-19 færði okkur voru ekki síst áskorun fyrir starfsfólk leikskólanna í landinu. Á þeim hefur hvílt mikil ábyrgð, sem fólst í að umbreyta starfsumhverfi, aðstöðu, verklagi og takti leikskólastarfsins til að tryggja öryggi og heilsu nemenda, foreldra, sjálfra sín og samfélagsins alls. Auðvitað var verkefni okkar allra að tryggja góðar sóttvarnir og hugsa um hag heildarinnar. Það er hins vegar sanngjarnt og eðlilegt að draga fram og þakka sérstaklega fyrir starf kennara og annars starfsfólks skólanna okkar þegar við lítum um öxl og metum hvernig okkur gekk að halda í það sem skiptir hvað mestu máli, á tímum óvissu og áhættu. 

Það er ómetanlegt að börnin okkar hafa fengið að stunda sitt nám og njóta þess innan innan veggja leikskólans síns að vaxa og þroskast og halda öruggum takti, þrátt fyrir það ástand sem ríkt hefur. Það er staðreynd að börn víða um heim hafa orðið fórnarlömb Covid; milljónir barna hafa þurft að hverfa frá námi, búa við aukið óöryggi og verri heimilisaðstæður, jafnvel hungur. Við þurfum ekki einu sinni að horfa út fyrir landssteinana til að sjá að það er ekki sjálfsagt að hægt sé að halda úti óbreyttu þjónustustigi við þessar aðstæður. Í Grundarfirði náðist að veita börnunum okkar og fjölskyldum þeirra þetta öryggi - öll leikskólabörn gátu sótt námið sitt, allan tímann. Þetta eigum við starfsfólki leikskólans og leikskóladeildarinnar okkar að þakka og góðu samstarfi við foreldra. Með elju, jákvæðni og seiglu tókust stjórnendur og starfsfólk Leikskólans Sólvalla og leikskóladeildarinnar Eldhamra í grunnskólanum, á við áskoranir ársins, fundu nýjar lausnir og vönduðu til verka. 

Á Degi leikskólans færi ég öllu starfsfólki Leikskólans Sólvalla og leikskóladeildarinnar Eldhamra innilegar þakkir frá Grundarfjarðarbæ, sbr. einnig bókanir í bæjarstjórn og skólanefnd þar að lútandi. Þakkirnar eigið þið skildar fyrir framúrskarandi störf við krefjandi aðstæður. Við erum stolt af ykkar starfi og þakklát. 

Til hamingju með Dag leikskólans og innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu, Orðsporið 2021.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri