Dagur tónlistarskólanna

 

Dagur tónlistarskólanna er 7.febrúar. Markmiðið með Degi tónlistarskólanna er að vekja athygli á fjölbreyttri og öflugri starfsemi tónlistarskólanna í landinu og eins að styrkja tengsl við nærsamfélagið. 

Dagurinn er tileinkaður minningu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar (7.febrúar 1917-18.ágúst 2004) fyrrverandi menntamálaráðherra. Í embættistíð hans beitti hann sér fyrir margvíslegum umbótum í skóla og menningarmálum sem við búum enn að. M.a. gaf hann út reglugerð árið 1959 um stofnun söngkennaradeildar (síðar nefnd tónmenntakennaradeild) og síðar bættust við hljóðfærakennaradeildir. Hann beitti sér jafnframt fyrir undirbúningi að stofnun tónlistarskóla á landsbyggðinni, en þeir örfáu sem þar voru um 1960 voru einkareknir og sumstaðar við bág skilyrði og öryggisleysi þar sem skólahald gat fallið niður ef illa áraði.Vegna framgöngu hans náðu fyrstu lögin um fjárhaglegan stuðning við tónlistarskóla fram á 7.áratug síðustu alda.  

Úr tónlistarskólanum okkar er það annars að frétta að í byrjun desember héldum við glæsilega jólatónleika fyrir fulla kirkju, síðan um miðjan desember fóru nemendur og spiluðu fyrir íbúa Fellaskjóls. Í vetur var klárað að útbúa kennslurými fyrir raftónlist/podcast/upptökur og á næstu vikum munum við hefja kennslu við nýja deild, raftónlist. Hún verður til að byrja með kennd sem valáfangi í grunnskólanum.  

Tónlistarskólinn er fyrir alla og hvetjum við fólk sem hefur átt þann draum að læra á hljóðfæri að láta hann rætast. Það er aldrei of seint að læra.

Það eru nokkur laus pláss í öllum deildum og bendum við áhugasömum á að senda umókn á netfangið tonlistarskoli@gfb.is eða fylla út umsókn á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar: https://www.grundarfjordur.is/is/stjornsysla/vinnustadurinn/umsoknir-eydublod/umsokn-um-nam-vid-tonlistarskola-grundarfjardar 

Til hamingju með daginn!  

Myndir úr starfinu