Græna teymi umhverfisvottunarverkefnis sveitarfélaganna með fánann við Kirkjufellsfoss

 

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi fagna EarthCheck umhverfisvottun 13. árið í röð – til hamingju Snæfellingar!

Sveitarfélögin fengu fyrst vottun frá vottunarsamtökunum árið 2008, fyrst allra samfélaga í Evrópu, og halda því áfram að vera leiðandi samfélag í úrbótum umhverfis- og samfélagsmála.

 Með samtakamætti á Snæfellsnesi fyrir nær tveimur áratugum hófu sveitarfélögin á Snæfellsnesi ferli til að fá umhverfisvottun, eitt af þeim skrefum sem hafa verið tekin til að standa vörð um náttúru og samfélag á svæðinu. Ferlið tók nokkur ár, skipulagsbreytingar og aðlaganir í takt við breyttan heim, og á endanum fengum við umhverfisvottun EarthCheck árið 2008. Vottunin er ekki árangurinn í sjálfu sér, heldur staðfesting á árangri og framförum.

Við höfum í samvinnu við samfélagið tekið skref til að minnka einnota og barist fyrir margnota, við höfum hreinsað strendur, sveitir og bæi í áraraðir, safnað tugum tonna af rusli úr náttúrunni og komið á fót skráningarkerfi sem gefur miklu betra yfirlit um auðlindanotkun á vegum sveitarfélaganna. Börnin okkar hafa mun greiðari aðgang að upplýsingum um loftslagsbreytingar og umhverfismál í skólum og félagsstarfi en áður. Aðgengi að nokkrum viðkvæmum og vinsælum stöðum á Snæfellsnesi hefur verið bætt með hag fólks og verndun náttúrunnar að leiðarljósi og sú vinna heldur áfram. En við stoppum ekki hér því verkefninu lýkur aldrei.

Frétt á vef Umhverfisvottunar Snæfellsness