Með bréfi dagsettu 13. apríl 2010, hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga tilkynnt bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar, að hún muni ekki að svo stöddu aðhafast frekar vegna fjárhagslegrar stöðu bæjarfélagsins.  Nefndin áréttar að vinna þurfi markvisst að því að bæta rekstrarafkomu og að lækkun á skuldastöðu sem nefndin telur vera of háa eins og er.  Tekið er fram, að í fjárhagsáætlunum fyrir yfirstandandi og næstu ár, sé gert ráð fyrir hallalausum rekstri bæjarsjóðs.  Nefndin fer fram á að ársreikningar fyrir árið 2009 verði sendir til hennar um leið og þeir hafa verið afgreiddir.  Einnig er farið fram á að nefndinni berist ársfjórðungslega uppgjör úr rekstri sveitarfélagsins með samanburði við fjárhagsáætlun.

Þegar á síðari hluta ársins 2008 var gripið til aðhaldsaðgera í rekstri bæjarins og þeim var haldið áfram skipulega og markvisst á síðasta ári.  Árangurinn varð sá að allur rekstrarkostnaður lækkaði á milli áranna 2008 og 2009.  Með þessu var brugðist við efnahagshruninu um leið og það varð og þeirri vinnu hefur verið haldið áfram.  Á síðasta ári varð lántaka minni en afborganir lána, þannig að fyrir utan áhrif af verðbólgu og gengissigi, var um lækkun skulda að ræða hjá bæjarsjóði.  Ársreikningar fyrir árið 2009 voru lagðir fram til fyrri umræðu þ. 25. mars sl.  Síðari umræða og afgreiðsla fer fram seinna í þessum mánuði.