Frétt á vef Skessuhorns 2. nóvember 2009:

Bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúar fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi komu saman til fundar á Hellissandi síðastliðinn fimmtudag. Héraðsnefnd Snæfellinga boðaði til fundarins en tilefnið var ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðar frá því í byrjun september þar sem óskað var eftir viðræðum um sameiningu sveitarfélaga á Snæfellsnesi. “Það kom berlega fram á þessum fundi að ekki er almennur vilji bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúa til að skoða sameiningarmál að sinni. Það voru sérstaklega bæjarfulltrúar í Snæfellsbæ og Stykkishólmi sem höfðu lítinn áhuga,” segir Sigríður Finsen forseti bæjarstjórnar í Grundarfirði. Hún segir að formleg ákvörðun bæjarstjórnanna liggi hins vegar ekki fyrir, en af umræðum á fundinum hafi mátt ráða að ekki verði farið í sameiningarviðræður að frumkvæði bæjarfulltrúa þessara sveitarfélaga.

Sigríður segir að bæjarstjórnin í Grundarfirði hafi verið samstíga um að skoða þessi mál ofan í kjölinn. “Aðstæður hafa breyst mikið í kjölfar hrunsins. Við teljum að sveitarfélög verði sameinuð innan ákveðins tíma og það sé betra að vinna að sameiningu á forsendum heimamanna. Við breyttar efnahagsaðstæður þurfa sveitarfélög líkt og aðrir að leita hagræðingar allsstaðar. Sameinað sveitarfélag hefði því að okkar mati styrkari stöðu til að takast á við þau mál og sinna hagsmunagæslu fyrir Snæfellsnes,” segir Sigríður Finsen.

Eggert Kjartansson oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps var fulltrúi hreppsins á fundinum. “Það er mín skoðun að hvorki ríki né sveitarfélög mega taka einhverjar skyndiákvarðanir að óathuguðu máli við núverandi aðstæður. Ég tel að með þessum fundi hafi ekkert verið útilokað en hvatt var til að sveitarfélög á svæðinu þróuðu með sér enn frekara samstarf en nú er og menn sjái til hvers það leiðir. Í raun var enginn að hafna sameiningu á síðari stigum þó mismunandi sjónarmið hafi vissulega komið fram á fundinum,” sagði Eggert.

Því má við þetta bæta að tillaga Grundfirðinga hafði stuðning fulltrúa fleiri sveitarfélaga á fundinum á Hellissandi, þar á meðal úr Snæfellsbæ og Stykkishólmi.