...varð ungri konu að orði, þegar hún lýsti muninum á útliti bæjarins eftir að götusópurinn hafði farið um bæinn í liðinni viku.

 

Og það er mikið rétt, götusópun er mikil andlitslyfting. Nú þegar nálgast hátíðina „Á góðri stund“ er eins og bæjarbúar taki kipp, tíni fram málningarföturnar, kústa og kantskera, til að snyrta og snurfusa umhverfi sitt.

 

Hendum ruslinu .... í ruslaföturnar

Eitt af því neikvæða fyrir nemendur vinnuskóla og sumarstarfsmenn bæjarins, sem og fyrir alla íbúa, er að sjá rusl og glerbrot eins og hráviði, á svæðum sem sífellt er verið að eyða tíma og fjármunum í að halda hreinum og snyrtilegum.

 

Engin glerbrot, takk...

Brýnum fyrir börnum og unglingum að henda hvorki rusli né brjóta glerflöskur á víðavangi – og sýnum gott fordæmi sjálf. Glerbrot eru að verða mikil plága á opnum svæðum í bænum, mun meira en áður hefur þekkst. Glerbrotin eru bæði sóðaleg og hættuleg og dæmi eru m.a.s. um glerbrot á leikvöllum bæjarins.

 

Göngum vel um „Á góðri stund“

Hátíðin nálgast og bærinn klæðir sig í sparifötin. Tökum öll höndum saman um að ganga vel um bæinn okkar, okkur sjálfum til yndis og sóma og til að bjóða gesti velkomna.

Hér að neðan má sjá myndir af nokkrum Grundfirðingum snyrta, mála og gera fínt hjá sér.

Halla

Marinó Ingi

Orri og Geirfinnur

Anna Björg

Inga Magný