Í dag er alþjóðlegur dagur reykskynjarans.

Reykskynjarar eru nauðsynlegir á öllum heimilum. Þeir þurfa að vera í öllum rýmum og ekki síst þar sem raftæki eru. Reykskynjara þarf að 

  • Yfirfara reglulega - helst 4 sinnum á ári (athuga hvort þeir virki)
  • Skipta um rafhlöðu einu sinni á ári
  • Endurnýja - því líftími reykskynjara er ekki meiri en 10 ár

Grundarfjarðarbær og Starfsmannafélag Slökkviliðs Grundarfjarðar hrinda nú af stað átaksverkefni um bættar eldvarnir með Félagi eldri borgara í Grundarfirði (FEBG).

Verkefnið felst í því að:  

  • Starfsmannafélag Slökkviliðs Grundarfjarðar býður eldri íbúum, 67 ára og eldri, að endurnýja reykskynjara á heimilum þeirra.
    Nýr/nýir reykskynjarar eru gjöf frá Starfsmannafélaginu og verða settir upp íbúum að kostnaðarlausu.
  • Grundarfjarðarbær leggur til vinnu slökkviliðsmanns/-manna við að skipta út gömlum reykskynjurum fyrir nýja á heimilum eldri íbúanna í bænum, sem þess óska. Þessi vinna verður fólki að kostnaðarlausu.  
  • Grundarfjarðarbær og Slökkviliðið bjóða ennfremur uppá almenna eldvarnafræðslu og kennslu/yfirferð í notkun eldvarnartækja fyrir félagsmenn FEBG. Til dæmis hvernig á að nota slökkvitæki og eldvarnateppi, hvar á að staðsetja slík tæki og hvernig þarf að viðhalda þeim. Tímasetning og fyrirkomulag á slíkum viðburði verður ákveðin í samstarfi við stjórn FEBG.   
  • FEBG sér um að kynna og hvetja eldri íbúa til þátttöku í þessu átaki, í samvinnu við Grundarfjarðarbæ og Starfsmannafélag SG, og halda utan um skráningu á óskum félagsmanna, þ.e. hverjir vilja nýta sér þetta. 

Desember er mánuður sem hentar vel til aukinnar árvekni um brunavarnir. Þess vegna er átakinu hleypt af stað nú.

Starfsmannafélag Slökkviliðsins hefur í desember ár hvert gengið í hús og selt vandað og skemmtilegt dagatal slökkviliðsmanna, reykskynjara, handslökkvitæki og eldvarnateppi. Þannig hefur orðið til sjóður sem Starfsmannafélagið hefur nýtt í þágu ýmissa góðra málefna, eins og nú.

Grundarfjarðarbær hefur verið að leggja aukna áherslu á forvarnir, m.a. eldvarnir.
Bærinn er þátttakandi í verkefninu "Eigið eldvarnaeftirlit sveitarfélaga" sem VÍS gengst fyrir með sveitarfélögum sem tryggja hjá VÍS. Um er að ræða aukið eftirlit og árvekni í eldvörnum hjá stofnunum Grundarfjarðarbæjar.
Fyrr á þessu ári voru eldvarnir bættar í 15 íbúðum í kraupréttarkerfi eldri íbúa, að Hrannarstíg 18 og Hrannarstíg 28-40. Grundarfjarðarbær samdi þá við Starfsmannafélagið um að bæta við reykskynjurum og slökkvitækjum í íbúðirnar. 
Nú nýlega var lokið við nýja brunavarnaáætlun Grundarfjarðarbæjar til 5 ára.

Við fögnum því samstarfinu og hlökkum til að vinna með FEBG og eldri íbúum bæjarins - og þökkum Starfsmannafélaginu um leið fyrir frábært boð. 

---

Hér má sjá myndband Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Ertu eldklár um jólin? sem við mælum með að þú horfir á.