Mynd: Mateusz Moniuszko
Mynd: Mateusz Moniuszko

Endurskoðuð brunavarnaáætlun Slökkviliðs Grundarfjarðar var samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í dag, 3. desember 2021. Endurskoðuð áætlun var unnin af Valgeiri Þór Magnússyni, slökkviliðsstjóra eftir fyrirmynd HMS og samþykkt af bæjarstjórn 11. maí sl. Eftir minniháttar athugasemdir staðfestu forstjóri HMS, slökkviliðsstjóri og bæjarstjóri áætlunina með rafrænni undirritun í dag. 

Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem fengið hefur samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar. Brunavarnaáætlun skal endurskoða eigi síðar en að fimm árum liðnum frá því að hún hlaut samþykki.

Þetta er í annað sinn sem brunavarnaáætlun fyrir Grundarfjörð er samþykkt, en sú eldri var frá 2015.  

Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin að lögum og þær áhættur sem eru í sveitarfélaginu.

Brunavarnaáætlanir eiga að stuðla að því að vernda líf og heilsu fólks, eignir og umhverfi með fullnægjandi eldvarnaeftirliti og viðbúnaði við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi, en það er einmitt skilgreint markmið laga um brunavarnir nr. 75/2000. 

Brunavarnaáætlanir gefa íbúum og stjórn sveitarfélagsins gott yfirlit yfir starfsemi og ástand slökkviliða og geta því orðið grunnur að gæðastjórnun og áætlun um endurbætur, t.d. hvað varðar búnað, menntun og samstarf við aðra aðila. 

Einn mikilvægasti þáttur brunavarnaáætlunar er að gera sér grein fyrir hvar úrbóta er þörf og verður því unnið á þeim grunni næstu mánuði og ár. 

Hér má finna samþykkta brunavarnaáætlun Slökkviliðs Grundarfjarðar, 2021-2026. 

Frétt á vef HMS