Er lögheimili rétt skráð?

Fyrir 1. desember þurfa allir að vera með lögheimili sitt rétt skráð á þeim stað sem þeir hafa fasta búsetu. Það er mikilvægt svo öll réttindi sem fylgja lögheimili séu tryggð.  

Þau sem eiga eftir að breyta lögheimili sínu eru hvött til að ljúka því sem allra fyrst og í síðasta lagi fyrir lok nóvember.

Hvað er lögheimili?

Lögheimili er sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu, skv. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Mjög mikilvægt er að allir séu rétt skráðir með lögheimili, því þangað renna skatttekjurnar. Sé maður rangt skráður, er hætt við því að viðkomandi, eða fjölskylda hans, sé að fá þjónustu án þess að greiða skatta í viðkomandi sveitarfélagi.

Hvað er föst búseta?

Föst búseta er á þeim stað þar sem maður hefur bækistöð sína dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er. Þetta þýðir að lögheimili manns skal jafnan vera þar sem hann býr á hverjum tíma.

Hvenær og hvar skal tilkynna flutning?

Tilkynna skal flutning innan 7 daga eftir að flutt er. Flutning er hægt að tilkynna rafrænt eða með því að mæta í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða á Akureyri. Vinsamlegast athugið að framvísa þarf löggildum skilríkjum: vegabréfi, íslensku ökuskírteini eða nafnskírteini. Einungis er heimilt að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði og þarf húsnæðið að vera komið á byggingarstig 4. 

Hér er hægt að breyta lögheimili rafrænt.