Ungir Grundfirðingar reisa sér hús - kofanámskeið í júní 2022
Ungir Grundfirðingar reisa sér hús - kofanámskeið í júní 2022

Er lögheimilið rétt skráð?

Fyrir 1. desember þurfa allir að vera með lögheimili sitt rétt skráð. Það er mikilvægt svo réttindi sem fylgja lögheimili séu tryggð og útsvarið renni í það sveitarfélag þar sem fólk hefur lögheimili.  

Þau sem eiga eftir að breyta lögheimili sínu eru hvött til að ljúka því fyrir lok nóvember.

Hvað er lögheimili?

Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu, skv. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. nr. 80/2018. Mjög mikilvægt er að lögheimili fólks sé rétt skráð, því þangað renna skatttekjurnar. Sé fólk rangt skráð, er hætt við því að viðkomandi, eða fjölskylda hans, sé að fá þjónustu án þess að greiða skatta í viðkomandi sveitarfélagi. 

Hvað er föst búseta?

Föst búseta er á þeim stað þar sem fólk hefur fasta búsetu. Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. 

Hjón mega nú hafa sitt hvort lögheimili

Hjón eiga alla jafna sama lögheimili, en í lögunum frá 2018 var sett nýtt ákvæði um að hjónum er nú heimilt að skrá lögheimili sitt hvort á sínum staðnum, t.d. án þess að samsköttun þeirra tapist.

Fólk sem er í óvígðri sambúð og kýs að skrá sambúð sína í þjóðskrá, þarf hinsvegar að hafa sama lögheimili til að sambúð teljist staðfest og þau njóti t.d. samsköttunar. 

Hvenær og hvar skal tilkynna flutning?

Tilkynning um breytingu á lögheimili innan lands og aðsetri skal gerð rafrænt eða á starfsstöðvum Þjóðskrár Íslands. 
Tilkynna skal um breytt lögheimili eigi síðar en sjö dögum eftir að breytingar á búsetu eiga sér stað. Einungis er heimilt að skrá nýtt lögheimili fjórtán daga aftur í tímann. 

Einungis er heimilt að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði og þarf húsnæðið að vera komið á byggingarstig 4. 

Hér er hægt að breyta lögheimili rafrænt.