Teikning: Herborg Árnadóttir, fyrir Grundarfjarðarbæ.
Teikning: Herborg Árnadóttir, fyrir Grundarfjarðarbæ.

 

Það skiptir máli að vera með lögheimili sitt rétt skráð. Það er mikilvægt svo öll réttindi sem fylgja lögheimili séu tryggð. ´Það er í lögheimilissveitarfélaginu sem hver og einn á rétt á helstu þjónustu. Auk þess ræður lögheimilið því til hvaða sveitarfélags útsvarið rennur. 

Grundarfjarðarbær hvetur nýja íbúa til að skrá lögheimili sitt í sveitarfélaginu og hvetur jafnframt vinnuveitendur til að aðstoða starfsfólk þannig að skrá megi lögheimili rétt. 

Hvað er lögheimili?

Lögheimili er sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu, skv. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018.  
Föst búseta er á þeim stað þar sem maður hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er að jafnaði. Þetta þýðir að lögheimili manns skal jafnan vera þar sem hann býr á hverjum tíma. 

Samkvæmt lögum um lögheimili er hjónum nú heimilt að skrá lögheimili sín á sitt hvorum staðnum, án þess að það hafi áhrif á stöðu þeirra í hjónabandi eða sameiginleg skattskil.
Um lögheimili sambúðarfólks fer skv. 5. gr. laganna og um lögheimili barna, fer skv. 6. gr. laganna.

Er hægt að hafa lögheimili í hverskyns húsnæði?

Lögheimili skal skráð í tiltekinni íbúð eða húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli. Húsnæðið þarf að vera skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands (að lágmarki komið á byggingarstig 4) og þarf að hafa fengið staðfang, sbr. 2. gr. laganna um lögheimili og aðsetur frá 2018.

Ennfremur er heimilt að skrá lögheimili á stofnunum fyrir aldraða, í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og skilgreindum starfsmannabústöðum. 

Í annars konar húsnæði, s.s. sumarhúsum eða atvinnuhúsnæði, er ekki heimilt að skrá lögheimili sitt. 

Útsvarið 

Á skattskyldar tekjur einstaklinga utan rekstrar, aðrar en fjármagnstekjur, er annars vegar lagður á tekjuskattur, sem rennur til ríkisins og hins vegar útsvar. Útsvar skattgreiðanda rennur til lögheimilissveitarfélags greiðanda. Sjá nánar um ´útsvarið hér.

Það munar sannarlega um útsvar hvers og eins. Auk þess er íbúafjöldi grunnur að útreikningi á þeim tekjum sem sveitarfélagið fær úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, í nokkrum flokkum. Útsvarið og Jöfnunarsjóðstekur eru samanlagt yfir 60% af tekjum bæjarsjóðs. 

Hvenær og hvar skal tilkynna flutning?

Tilkynna skal flutning innan 7 daga eftir að flutt er. Flutning er hægt að tilkynna rafrænt eða með því að mæta í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða á Akureyri. Vinsamlegast athugið að framvísa þarf löggildum skilríkjum: vegabréfi, íslensku ökuskírteini eða nafnskírteini.  Hér er hægt að breyta lögheimili rafrænt.