Árið 2020 var sannkallað framkvæmdaár og voru bæjarbúar duglegir að nýta tímann og taka til hendinni heima við. Löngu tímabærar endurbætur utan sem og innanhúss hafa átt sér stað sem og verkefnið að klára loksins pallinn, smíða garðhýsið, skipta út glugganum sem hefur lekið í háa herrans tíð og margt annað.

Við fögnum framkvæmdagleðinni, því vel hirt hús þýðir fallegt umhverfi sem gerir fallegan bæ.

Vert er að benda á að einstaka framkvæmdir eru leyfisskyldar og aðrar tilkynningarskyldar til byggingarfulltrúaembættis, sbr. 2.3.4. gr og 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, t.d.:

  • Viðhald innanhúss í íbúðarhúsum er almennt ekki háð byggingarleyfi, nema breyta eigi burðarveggjum, burðarvirki eða eldvarnarveggjum, flytja til votrými eða eldhús innan íbúðar. Þá þarf að sækja um byggingarleyfi.
  • Hið sama gildir innanhúss í atvinnuhúsnæði, en auk þess þarf þar að fá byggingarleyfi þegar endurnýjun léttra innveggja felur í sér breytingu á fyrirkomulagi þeirra,
  • Minniháttar breytingar á burðarveggjum, eldvarnarveggjum, votrými eða lögnum innan íbúðar eru tilynningarskyldar til byggingarfulltrúa.
  • Viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga er ekki leyfisskylt nema ef notað er annað, ósambærilegt efni. Sækja þarf um leyfi þegar útliti er breytt, burðarvirki er endurbyggt að hluta eða öllu leyti.
  • Nýklæðningu þegar byggðra bygginga og minniháttar breytingar á burðarvirki ber að tilkynna til byggingarfulltrúa áður en framkvæmdir hefjast. 
  • Smáhýsi á lóð má að hámarki vera 15m2 og einnig þarf samþykki nágranna að liggja fyrir ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3 metra. Framkvæmdaraðilar eru eindregið hvattir til þess að kynna sér ákvæði byggingarreglugerðar um smáhýsi og hvaða reglur gilda þar um, sjá hér
  • Sækja þarf um stöðuleyfi til byggingarfulltrúa vegna lausafjármuna á lóð sem eiga að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem eru sérstaklega skipulögð sem geymslusvæði. Til lausafjármuna teljast hjólhýsi, gámar, bátar o.s.frv. Sjá nánar í reglum um lausafjármuni á vef Grundarfjarðarbæjar, hér.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Grundarfjarðarbæjar hvetur íbúa til að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna og að leita ráða áður en til framkvæmda kemur.

Samvinna er góð vinna.

Gleðilegt nýtt framkvæmdaár!