Stórt er spurt og e.t.v. ekki alveg ljóst hvað spyrjandi á við.  Málefnið varðar tiltekt, fegrun og snyrtingu á umhverfi okkar.  Er byggðin öll komin í sumarbúning ?  Er allt í því horfi sem við viljum kynna sveitarfélagið okkar ?  Þegar talað er um umhverfi, er ekki eingöngu átt við opin svæði í náttúrunni, miklu frekar er átt við byggðina sjálfa.  Höfum við tekið til og hreinsað við húsin okkar ?  Eru athafnasvæði fyrirtækja í góðu lagi ?  Svörin eru örugglega jafn mörg og húsin og lóðirnar eru.  Margir eru til hreinnar fyrirmyndar og rækta sinn garð af mikilli umhyggjusemi og natni, en inn á milli þarf að bæta í.

Of víða er viðhald húsa og lóða ekki alveg eins og best getur verið.  Ástæður þessa eru af margvíslegum toga og verður ekki reynt að greina þær.  Getur verið í einhverjum tilfellum að við séum „hætt að sjá“ það sem lagfæra þarf vegna þess að þetta er fyrir augunum alla daga ?  Þegar lóðir og athafnasvæði sumra fyrirtækja eru skoðuð, er ýmislegt sem stingur í augun og stundum er ekki alveg ljóst til hvers viðkomandi hlutir eru geymdir óhreyfðir og gagnslausir árum saman.  Vantar ekki bara svolítið framtak til þess að koma þessum hlutum í viðeigandi meðferð eða geymslu á betri stað ?

 

Svona er endalaust hægt að spyrja, en þegar upp er staðið er málið tiltölulega einfalt:

 

STÖNDUM UPP OG TÖKUM TIL HENDI, BÆÐI VIÐ HÚS OG LÓÐIR.  HENDUM ÓNÝTU DRASLI (FYRRVERANDI VINNUTÆKJUM, BÍLHRÆJUM OG FLEIRU) OG SNYRTUM OKKAR NÁNASTA UMHVERFI.  ÁSÝND BYGGÐARINNAR SEGIR GESTUM OKKAR HVER VIÐ ERUM.

 

Með 1. maí kveðju og óskum um gott sumar,

Bæjarstjóri