Hafnar eru framkvæmdir við stækkun Eyrbyggju - Sögumiðstöðvar. Stækkunin, við húsið norðanvert, kemur til með að hýsa snyrtingar/salerni.
Vegna breyttrar notkunar hússins, sem áður var verslunarhús, þarf einnig að ráðast í ýmsar aðrar breytingar á því. Mikil vinna hefur verið lögð í hönnun er taki mið af því að ná fram sem mestri hagkvæmni og að starfsemin rúmist sem best í húsinu, auk þess sem lögð er áhersla á glæsilegt útlit og góða aðkomu að húsinu.
Orri Árnason arkitekt sem á og rekur arkitektastofuna Zeppelin í Garðabæ hefur séð um alla arkitektavinnu.

 

Framhlið sögumiðstöðvar

Orri, sem er ,,gamall” Grundfirðingur, gaf alla sína vinnu og félaga sinna á stofunni við hönnunina. Þetta gerir Orri í minningu afa síns, Emils Magnússonar kaupmanns sem byggði húsið og rak í því verslunina Grund í um tvo áratugi.
Framkvæmdir við Sögumiðstöðina hafa tafist nokkuð að undanförnu vegna veðurs en ráðgert var að hefjast handa við nýtt útlit hússins í byrjun febrúar.  Verkfræðiteikningar voru unnar hjá Almennu verkfræðistofunni hf. í Reykjavík, fyrir milligöngu Grundfirðingsins Gísla Karels Halldórssonar, og var sú vinna lögð inn sem stofnframlag verkfræðistofunnar í sjálfseignarfélaginu um Eyrbyggju - Sögumiðstöð.
Þess má geta að bæði Orri og Gísli Karel eru í stjórn Eyrbyggja, Hollvinasamtaka Grundarfjarðar.
Frábært fólk Eyrbyggjarnir!