Eyrbyggjar, hollvinasamtök Grundarfjarðar, slá hvergi slöku við og héldu sinn 40. stjórnarfund þann 4. febrúar sl. Stjórnin hittist mánaðarlega og um þessar mundir er hún á fullu við að skipuleggja og viða að sér efni í næsta hefti í ritröðinni ,,Fólkið, fjöllin, fjörðurinn” – safn til sögu Eyrarsveitar.

Alþingi samþykkti í desember tillögu fjárlaganefndar þingsins, um að veita Eyrbyggjum 400.000 kr. styrk til útgáfu ritsins í fjárlögum 2003. Góður árangur hjá stjórninni, sem sótti um þennan styrk til útgáfunnar.  

 

Í gær fundaði einnig sögunefnd Grundarfjarðarbæjar og fjallaði um svipað efni, hvað hægt væri að leggja til í þar næsta rit 2004. Einnig ályktaði sögunefnd að sækja um styrk í Styrktarsjóð Sparisjóðs Eyrarsveitar.

Meðal þess sem stjórn Eyrbyggja leitar nú að, eru gamlar myndir/málverk úr Grundarfirði eftir Halldór Pétursson. Halldór var sérstaklega þekktur fyrir fallegar teikningar og vatnslitamyndir, ekki síst af hestum sem gjarnan koma við sögu í myndum hans.

Stjórn Eyrbyggja verður vafalaust fegin ef eigendur slíkra mynda vilja hafa samband (t.d. við Gísla Karel formann) og lána myndir sínar til að unnt sé að skanna þær til birtingar í ritinu.

Minnt er á heimasíðu Eyrbyggja, www.grundarfjordur.is/eyrbyggjar

Þar birtast m.a. allar fundargerðir stjórnar og fleira fróðlegt.