Fatamarkaður í Samkomuhúsi Grundarfjarðar

Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið ákveðið að lengja opnunartíma fatamarkaðarins í samkomuhúsinu til fimmtudagsins 11. desember.

Grundarfjarðarbær hefur staðið fyrir markaði með notuð föt í samkomuhúsinu dagana 5.-8. desember. Hægt er að koma með notuð föt, hrein og vel með farin, og eins er hægt að taka sér föt og koma þeim þannig í áframhaldandi notkun.

Viðtökur hafa verið góðar og hafa margir séð sér leik á borði og tekið til í fataskápunum fyrir jólin. Mikið úrval af útifötum og skóm eru í anddyri samkomuhússins og í innri sal er hægt að finna allt frá jólakjólum til íþróttafatnaðar.

Íslendingar losa sig við 10 tonn af textíl á dag og aðeins 10% af því magni fer í endurnotkun innanlands. Um 90% er sent úr landi til endurnotkunar eða í endurvinnslu. Eins og staðan er í dag fer stór hluti þess magns í brennslu (orkuendurnýting), það er textíll sem hvorki er hæfur til endurnotkunar né endurvinnslu vegna lakra gæða. 

Saman gegn sóun og Samband íslenskra sveitarfélaga standa að vitundarvakningu sem ber heitið „10 tonn af textíl“. Markmiðið er fyrst og fremst að hvetja fólk til að kaupa minna og nýta betur þann textíl sem það á. Á vefsíðunni samangegnsoun.is/10tonn/ er hægt að hægt að fræðast meira um þetta verkefni.

Tökum höndum saman og gefum fötum framhaldslíf!

Opnunartímar í samkomuhúsinu:
Þriðjudagurinn 9. desember – 15:45 – 18:00
Miðvikudagurinn 10. desember – 15:45 – 18:00
Fimmtudagurinn 11. desember – 15:45 – 18:00