Starfið hefur farið vel af stað í vetur. Mæting hefur verið góð og hefur frekar verið að aukast eftir því sem fleiri heyra að skipulögð dagskrá er farin í fullan gang! Krakkarnir geta ávallt séð hvaða dagskrá er í boði tvær vikur fram í tímann því hún er alltaf skrifuð upp á töflu í andyri Eden. Einnig verður hægt að nálgast hana hér á vefnum í framtíðinni.

En athugið hún gæti breyst fyrirvaralítið!

Nemendaráð Eden er nú komið á fullt og sér að mestu um dagskrárgerð og undirbúning hvers kvölds ásamt þeim starfsmanni sem með þeim verður á því kvöldi, sem og forstöðumanni. Í nemendaráðinu eru Þórður Björgvinsson, Ragna Sif Newman, Sigurborg Knarran Ólafsdóttir, Guðjón Örn Guðjónsson, Hugrún Lind Júlíusdóttir, Kamilla Rún Gísladóttir, Klaudia Sylwia Frank, Egill Guðnason, Sunna Björk Skarphéðinsdóttir og Laufey Lilja Ágústsdóttir. Nemendaráðið verður að vera öflugt og gott lið til að geta stjórnað og skipulagt starf Eden og hefur það sýnt sig að þessir krakkar eru vel tilbúin til þess og leggja sig 100% fram við þau verkefni sem fyrir liggja!

 

Í byrjun október var farin ferð til Akureyrar með hluta af Neminu á Landsmót Samfés. Tilgangur ferðarinnar var að hitta aðra krakka sem sinna svipaðri stöðu og okkar krakkar sem og að fá kost á að kynnast ýmsum “smiðjum” sem við gætum kallað klúbbastarf heils vetrar sett saman í einsdagspakka. Ferðin heppnaðist vel og allir komu sælir, ánægðir og vonandi fullir hugmynda heim!

Þann 15. október var síðan blásið til Hawaii – veislu. Þetta var hið árlega svefnpokapartý og fengu krakkarnir að fara í sund, vera í íþróttahúsinu og niðri í Eden. Síðan áttu þeir að sofa í íþróttahúsinu en spurningunni um hvort eitthvað hefur verið sofið verður trúlega bara svarað á einn veg... nei!

Dagskráin hefur líka verið fjölbreytt og skemmtileg sem af er vetri. Sem dæmi er búið að halda stelpukvöld, strákakvöld, videokvöld og síðast en ekki síst opið kvöld fyrir alla unglinga frá 8. bekk upp að 18 ára aldri, sem gekk bara mjög vel. Þetta eru nokkur dæmi þess sem við höfum verið að gera og fullt er eftir ennþá! Bara spurning um að mæta og kíkja á dagskránna og skoða hvað er í boði!

Leiklistarklúbbur er kominn í fullan “sving” með honum Lárusi og stefnir á að finna verk á næstu vikum til að sýna svo með promp og pragt þegar nær líður vori. Leiklistarhópurinn er búinn að nefna sig “Flakkandi flær”. Spennandi starf í gangi sem gaman er að fylgjast með!

Eftir áramót er svo stefnan að koma af stað ljósmynda- og fréttaklúbbi sem og skákklúbbi ef nægt þátttaka næst fyrir starfsemi þeirra.