Grundarfjarðarbær fékk á dögunum styrk frá Ferðamálastofu til vetraropnunar upplýsingamiðstöðvar. Gríðarlega mikilvægt er að veita góðar og réttar upplýsingar til ferðamanna yfir vetrartímann og vegna þeirrar miklu fjölgunar sem hefur orðið á ferðamönnum hér í bæ gegnir upplýsingamiðstöðin í Sögumiðstöðinni æ stærra hlutverki er varðar öryggi þeirra.

 

 Styrkurinn sem Ferðamálastofa veitti Grundarfjarðarbæ hljóðar upp á eina milljón króna auk Safetravel skjás frá Landsbjörg. Skjárinn var settur upp síðastliðinn miðvikudag og er hann þannig staðsettur að unnt verður að sjá á hann allan sólarhringinn og er markmið hans meðal annars að auka og bæta upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna og bæta slysavarnir á ferðamannastöðum víða um land. Safetravel skjáir eru nú komnir upp víða um land og er ánægjulegt að Grundarfjarðarbær geti nú boðið upp á þessa þjónustu.