,,Bestu fundirnir eru oft þeir sem ekki eru haldnir”, segir einhvers staðar í stjórnunarfræðum og er með því vísað til þess að oft sé gott að sleppa við að halda fundi og afgreiða mál eftir öðrum og skjótvirkari leiðum.

Á vegum bæjarstjórnar og -starfsmanna er oft töluvert um fundi, eðli málsins skv. þar sem margir aðilar koma oft að málum og ekki er hægt að afgreiða málefni með eins manns ákvörðun. Samráð og samstarf gjarnan nauðsynlegt, fyrir utan að vera lögbundið í sumum tilvikum.

Eftirfarandi fundir voru haldnir í gær, fimmtudag, svona rétt til að veita lesendum innsýn í brot af viðfangsefnum bæjarstjórnar, nefnda og starfsmanna þessa dagana;

  

Kl.  9.15 til 9.45; Bæjarskrifstofa – starfsmannafundur.

Umræðuefni;ýmis málefni sem snerta samskipti og þjónustu út á við, innri málefni skrifstofu, hugmyndir um starfsmannastefnu bæjarins.

Niðurstaða;skerpt á áherslum í þjónustu og samstarfi, gagnkvæm upplýsing.

Kl. 11.00; Höfnin – verklegar framkvæmdir.

Fundur og úttektarferð byggingafulltrúa, eftirlitsmanns Siglingastofnunar og raflagnahönnuðar ásamt verktakans í raflögnum og lýsingu á Grundarfjarðarhöfn (lengingu stóru bryggju)

Viðfangsefni;lokaúttekt verkhluta sem snýr að lögnum og lýsingu.

Niðurstaða;nauðsynlegum og formlegum þætti verksins lokið (úttekt) og verktaki fékk sérstakt hrós hjá eftirlitsmanni/hönnuði.

Kl. 11.30 til 12.50; Höfnin – skemmtiferðaskip.

Fundur bæjarstjóra (hafnarstjóra) og hafnarvarðar með Ásthildi Sturludóttur ferðamálafulltrúa/atvinnuráðgjafa SSV.

Á fundinn mætti einnig, að beiðni hafnarstjóra, hún Johanna í DeTours sem n.k. fulltrúi ,,ferðaþjónustunnar” í Grundarfirði. 

Umræðuefni;áætlanir hafnaryfirvalda um að fá aukinn fjölda skemmtiferðaskipa í Grundarfjarðarhöfn, sem er bæði  hagsmunamál fyrir hafnarsjóð og þjónustuaðila í Grundarfirði. Afþreying fyrir gesti/áhöfn skipanna meðan dvalið er í Grundarfirði, samantekt og útgáfa á upplýsingum um Grundarfjörð (hafnaraðstöðu, afþreyingu, bæinn sjálfan)

Niðurstaða;á stuttum fundi var dregið upp stöðumat; hverjir eru okkar styrkleikar og veikleikar í dag, hvar liggja tækifærin og hvað ber að varast. Ákveðin næstu skref - ,,kýlum á að nýta tækifærin”, drögum fram mynd af því sem við erum og því sem við getum boðið upp á, köllum saman alla aðila sem vilja og geta í sameiningu boðið upp á heildstæðan ,,pakka” fyrir þennan hóp.

Að auki;Boðað verður til opins fundar um hvernig standa megi að þessu 12. mars n.k. (auglýst síðar) og eftir það verða upplýsingar dregnar saman í einfalda útgáfu.

Kl. 15.15 til 16.50; Starf grunnskóla og staða í víðu samhengi. 

Fundur fræðslu- og menningarmálanefndar, bæjarstjóra og kennara/ starfsmanna Grunnskólans.

Kynningar- og samráðsfundur að frumkvæði fræðslunefndar.

Umræðuefni;Skólastarfið í heild sinni, ýmis viðfangsefni; samstarf skólanna í bænum (grunnskóli, leikskóli, tónlistarskóli o.fl.), hvernig náum við árangri sem heild – hvernig aukum við almennan metnað; mikilvægt að efla og viðhalda góðu samstarfi heimila og skóla. Hvaða leiðir og úrræði eru fyrir hendi?

Ýmsar vangaveltur um heildstæða fjölskyldustefnu; hvernig geta aðilar hjálpast að við að styrkja hvern annan; dæmi; hvernig getur markviss fræðsla og stuðningur við foreldra 1-2ja ára barna og leikskólabarna stuðlað að góðum árangri í 10. bekk eða í framhaldsskóla?

Niðurstaða; Fengin svör og góðar hugmyndir settar fram um ýmis verkefni sem nú heyra undir eina sameinaða fræðslunefnd sem ber að hafa yfirsýn yfir málaflokkinn í heild sinni.

Fram kom mjög ákveðinn áhugi og vilji fyrir samstarfi fleiri aðila, s.s. allra skólanna, heilsugæslunnar, foreldra, íþróttahreyfingar o.fl. við að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum íbúa í fræðslu- og uppeldismálum; fjölskyldumálum almennt.

Að auki;Að mikilvægt sé að halda á lofti því sem vel er gert, því sem til boða stendur og almennri umfjöllun um sveitarfélagið okkar.

Kl. 17.00 til 19.05; Bæjarráðsfundur.

Bæjarráð fundaði, bæjarstjóri og skrifstofustjórar.

Umræðuefni;Skv. dagskrá var til umfjöllunar og staðfestingar fundargerð bygginganefndar íbúða eldri borgara (frekari spurningum um hönnun einnig svarað), þriggja ára áætlun bæjarsjóðs og stofnana – tillögur gerðar um breytingar og frekari skiptingu á framkvæmdaliði, ákvörðun um útboð og skiptingu áfanga í gatnagerðarframkvæmdum í Ölkeldudal og ýmislegt fleira.

Niðurstaða;Formleg afgreiðsla og staðfesting, ákvarðanir teknar um framkvæmdaatriði (hlutverk bæjarráðs er að sinna framkvæmda- og fjármálastjórn).