Fjárhagsáætlun ársins 2011 var samþykkt í bæjarstjórn 21. desember sl. Áætlunin er unnin við krefjandi aðstæður og ber þess merki að mikillar hagræðingar þarf að gæta í rekstri sveitarfélagsins. Þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði, leggur bæjarstjórn áherslu á að standa vörð um grunnþjónustu samfélagsins og þá einkum þjónustu við börn og unglinga.

 

Gert er ráð fyrir að heildartekjur sveitarfélagsins verði liðlega 620 millj. kr. sem er um 3 millj. kr. lækkun frá áætluðum tekjum ársins 2010. Rekstrarniðurstaða A hluta verður jákvæð um 5 millj. kr. og samals af A og B hluta um 19,6 millj. kr. gangi áætlunin eftir.

 

Útsvarsprósenta verður 14,48% en hækkun útsvarsprósentu um 1,2%, úr 13,28% er vegna færslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Tekjuskattsprósenta lækkar um sömu tölu. Sveitarfélagið mun ekki fá þessa hækkun greidda til sín, heldur hafa sveitarfélög á Vesturlandi sameinast um rekstur þessa málaflokks. Í fjárhagsáætlun ársinser gert ráð fyrir því að útsvarstekjur standi nánast í stað og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga lækki um liðlega 8 millj. kr. Á móti kemur hækkun á fasteignasköttum og lóðarleigu. Áætlað er að skatttekjur verði lítið eitt lægri á árinu 2011 en árið 2010.

 

Af hálfu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hafa þau viðmið verið kynnt að framlegð frá rekstri (EBIDTA) sé á bilinu 15-20%. Í áætlun ársins 2011 er áætlað að framlegð A og B hluta verði 19,8% eða í hærri kanti þeirrar viðmiðunar sem mælt er með. Jafnframt er gert ráð fyrir að veltufjárhlutfall verði um 0,4 sem er betra en verið hefur en bæta þarf enn frekar veltufjárhlutfall sveitarfélagsins.

 

Til að ná viðunandi árangri í rekstri er ekki hjá því komist að hækka gjaldskrár og fasteignagjöld en reynt er að halda hækkunum í algeru lágmarki. Gengið er út frá því að tekjur vegna fasteignagjalda skili sveitarfélaginu alls um 5% hærri tekjum en á árinu 2010. Gjaldskrá leikskóla hækkar um 3% og áfram verða 4 stundir fríar fyrir elsta árganginn og 12 mánaða börn eru tekin í leikskólann á sömu gjaldskrá og greitt er fyrir önnur börn. 50% álag vegna barna 12-24 mánaða var fellt niður á miðju ári 2010. Gjaldskrá vegna skólamáltíða breytist ekki né heldur vegna heilsdagsskóla. Sú breyting verður á gjaldskrá tónlistarskóla að gjöld vegnar barna og ungmenna til 20 ára hækkar um 5% frá áramótum en gjaldskrá vegna nemenda 21 árs og eldri hækkar um 20% sem kemur að hálfu til framkvæmda á vorönn 2011 og að fullu á haustönn 2011. Leyfisgjöld fyrir hunda- og kattahald verða hækkuð um 10-20% en þrátt fyrir það eru leyfisgjöldin lág miðað við leyfisgjöld í mörgum öðrum sveitarfélögum.

 

Skuldir og skuldbindingar í árslok 2011 eru áætlaðar um 1.674 millj. kr. sem eru um 270% af heildartekjum sveitarfélagsins, en samkvæmt viðmiðunum í væntanlegum fjármálareglum sveitarfélaga má þetta hlutfall ekki vera hærra en 150%. Á árinu er gert er ráð fyrir því að skuldir verði greiddar niður um liðlega 41 millj. kr. en endurfjármögnun skulda er áætluð um 110 millj. kr.

 

Langtímaskuldir sveitarfélagsins eru að stærstum hluta við Lánasjóð sveitarfélaga, Íbúðalánasjóð og Arion banka. Liðlega þriðjungur lána sveitarfélagsins eru tengd erlendum gjaldmiðlum en óvissa er um lögmæti þeirra samninga. Þess er vænst að niðurstaða um lögmæti slíkra lánasamninga fáist á árinu.

 

Dregið verður umtalsvert úr fjárfestingum án þess þó að draga úr nauðsynlegu viðhaldi á eignum sveitarfélagsins. Fjárfestingar á árinu eru áætlaðar 15 millj. kr. og er liðlega helmingur vegna framkvæmda á hafnarsvæðinu. Aðrar framkvæmdir eru minni og skiptast á flestar stofnanir bæjarins.

 

Þetta er þriðja árið í röð sem þarf að gæta sérstkrar aðhaldssemi í fjárhagsáætlun bæjarins. Nú er svo komið að flatur niðurskurður dugar ekki, það þarf að forgangsraða verkefnum. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í rekstri sveitarfélagsins, sem einkum eru vegna utanaðkomandi atvika, er framtíðin björt. Við búum yfir miklum mannauði. Fyrirtæki í bænum eru framsækin og mannlíf og menningarlíf í Grundarfirði er fjölbreytt og skapandi.

 

Björn Steinar Pálmason

bæjarstjóri

Greinargerð með fjárhagsáætlun

Rekstrar-, sjóðstreymis- og efnahagsyfirlit 2011