Á bæjarstjórnarfundi 13. desember var fjárhagsáætlun ársins 2013 samþykkt.

Í bókun bæjarstjórnar á fundinum segir:

Í fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar vegna ársins 2013 er lögð megináhersla á að lækka skuldir. Hlutfall skulda af tekjum er nú 212%, en á samkvæmt sveitarstjórnarlögum að vera að hámarki 150%. Á árinu er gert ráð fyrir að greiða skuldir niður um 60 millj. kr. umfram lántökur. Með þessu er áætlað að skuldahlutfall verði undir 200% við árslok 2013 en það fór hæst yfir 250% árin 2009 og 2010. Gerð hefur verið áætlun um að ná lögbundnu hámarki innan 10 ára eins og reglugerð kveður á um.

Í fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar vegna ársins 2013 er lögð megináhersla á að lækka skuldir. Hlutfall skulda af tekjum er nú 212%, en á samkvæmt sveitarstjórnarlögum að vera að hámarki 150%. Á árinu er gert ráð fyrir að greiða skuldir niður um 60 millj. kr. umfram lántökur. Með þessu er áætlað að skuldahlutfall verði undir 200% við árslok 2013 en það fór hæst yfir 250% árin 2009 og 2010. Gerð hefur verið áætlun um að ná lögbundnu hámarki innan 10 ára eins og reglugerð kveður á um.

 

Miklar skuldir og háir raunvextir þrengja verulega að rekstri sveitarfélagsins. Fjármagnsgjöld miðað við óbreytta stöðu eru yfir 90 milljónir króna á ári og í mörg ár hafa verið tekin ný lán fyrir afborgunum. Ekki er hægt að halda áfram á þessari braut og koma þar ekki aðeins til lagabreytingar heldur grafa miklar skuldir undan stöðu sveitarfélagsins til lengri tíma litið.

Úttekt sem gerð var nýverið á rekstri Grundarfjarðarbæjar og kynnt hefur verið íbúum og starfsmönnum, sýnir að bæjarfélagið er vel rekið og hefur á undanförnum árum verið gengið eins langt og unnt er í rekstrarhagræðingu. Svigrúm til frekari hagræðingar er lítið og þarf því miður að hækka gjöld og ganga enn lengra í niðurskurði til að hægt verði að ná markmiðum um fjárhagslegt jafnvægi sveitarfélagsins. Það er einnig forgangsmál að ná samkomulagi við kröfuhafa svo greiðslubyrði lána verði viðráðanleg, enda er lánastaða bæjarins ekki einkamál íbúa Grundarfjarðarbæjar og verða lánardrottnar jafnframt að bera ábyrgð.

Gengið er út frá því að veltufé frá rekstri standi undir afborgunum lána næsta árs. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að hækka álögur á íbúa og munar þar mest um hækkun fasteignaskatts úr 0,5% i 0,625%. Hækkunin gildir til tveggja ára.

Gjaldskrár eru almennt hækkaðar sem nemur verðlagshækkunum, eða um 5%. Þó verða dvalargjöld í leikskóla og heilsdagsskóla óbreytt frá fyrra ári. Gjaldskrá fullorðinna í tónlistarskólanum hækkar verulega en fyrir breytinguna var sveitarfélagið að greiða niður tónlistarnám fullorðinna.

Í starfsmannamálum verður gætt verulegs aðhalds eins og undanfarin ár. Stefnt er að enn frekari hagræðingu í rekstri skóla sveitarfélagsins en þar hefur þegar náðst umtalsverður árangur. Fjárfestingar verða um 40 millj. kr. á árinu sem er undir því sem viðunandi er til lengri tíma litið.

Þessar aðgerðir eru sársaukafullar en það er trú bæjarstjórnar að núverandi fjárhagsþrengingar séu tímabundnar og mikilvægt er á slíkum tímum að horfa til framtíðar og leggja fjármuni til uppbyggingar þrátt fyrir niðurskurð. Bæjarstjórn Grundarfjarðar er einhuga í því að leysa núverandi fjárhagsvanda og með þessari fjárhagsáætlun ganga Grundfirðingar eins langt og kostur er til að ná settum markmiðum og styrkja stoðir samfélagsins til framtíðar.

Fjárhagsáætlun 2013.