Tekjur og gjöld

Í fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs og fyrirtækja bæjarins (hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, vatnsveita/fráveita/sorp) verði 434 millj. kr. Tekjur bæjarsjóðs eins eru rúmar 305 millj. en þar af eru útsvarstekjur áætlaðar 183,6 millj. kr., framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga áætluð um 95 millj. kr. og fasteignaskattar og lóðarleiga rúmar 26 millj. kr. 

Þá er gert ráð fyrir að rekstrargjöld verði samtals rúmar 391 millj. kr. Rekstrargjöld bæjarsjóðs eru þar af 344 millj. kr., stærstum hluta þeirra eða 189 millj. er varið til fræðslu- og uppeldismála. Afskriftir eru áætlaðar rúmar 28 milljónir og fjármagnskostnaður 34,1 millj. kr. nettó. Afgangur frá rekstri fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 70,9 milljónir.  Veltufé frá rekstri er áætlað 58 millj. kr. sem er 13,4% af heildartekjum. Gert er ráð fyrir 8,4 millj. kr. rekstrarafgangi á árinu.

 

Framkvæmdir

Gert er ráð fyrir framkvæmdum (eignfærðum) upp á rúmar 50 millj. kr. (fyrir utan vatnsveitu og hitaveitu). Helstu framkvæmdir ársins eru fyrirhugaðar þessar:

Stækkun á húsnæði leikskólans 40 millj. kr.

Götulýsing og gatnakerfi, framkvæmdir, 5,5 millj. kr.

Grunnskólinn 2,5 millj. kr. til ýmissa verka.

Samkomuhús 1,2 millj. og íþróttahús/sundlaug 1 millj. vegna viðhaldsverkefna.

Til skipulagsmála eru lagðar 2 millj. kr.

Tónlistarskóli og félagsmiðstöð 0,6 millj. kr. vegna endurnýjunar gólfefnis.

Þar að auki var samþykkt að leggja í borun vinnsluholu og tilheyrandi undirbúnings og framkvæmda við lagningu hitaveitu eftir því sem niðurstöður rannsókna á Berserkseyrarvatninu gefa tilefni til. Auk þess eru áform um endurbætur á vatnsveitunni til að auka vatnsöflun og vatnsmagn til miðlunar í veitukerfinu.

 

Skatttekjur og álagning

Skatttekjur sveitarfélagsins hækka á milli ára um 12,8% miðað við endurskoðaða áætlun fyrir árið 2004, en á árinu fjölgaði um 2 íbúa. Álagning útsvars er óbreytt, álagningarprósenta fasteignaskatts hækkar, fer úr 0,40 í 0,45% á íbúðarhúsnæði og úr 1,45 í 1,55% á atvinnuhúsnæði. Lóðarleiga hækkar úr 1% í 1,5%, holræsagjald hækkar úr 0,13 í 0,18% og vatnsgjald hækkar úr 0,228 í 0,28%. Sorphirðugjöld hækka um 5%.

Fasteignagjöld eru samtals 23,2 millj. kr. (álagning 2005). Aldraðir og öryrkjar fá felldan niður fasteignaskatt allt að 44.200 kr. á fasteign en niðurfellingin er tekjutengd. Í heild er um að ræða rúma eina millj. kr. eða 9% af álögðum fasteignaskatti íbúðarhúsnæðis.

Alls eru fasteignir í Grundarfjarðarbæ metnar á liðlega 3,3 milljarða kr. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis og íbúðarlóða í þéttbýli Grundarfjarðar (ákvarðað af Fasteignamati ríkisins) hækkaði um 10% frá fyrra ári og 6% hækkun varð á fasteignamati atvinnuhúsnæðis, bújarða og húsakosts á bújörðum. Til samanburðar má nefna að matsverð fasteigna hækkaði að meðaltali um 17% á landinu öllu og fer mest í 30% hækkun í Fjarðabyggð og að hluta á Seltjarnarnesi.

Í töflu sem birt var á vef Grundarfjarðarbæjar 4. mars sl. má sjá samanburð fasteignagjalda á nokkrum stöðum á landinu. Ekki er pláss til að birta þá töflu hér, en þar eru tekin dæmi um nokkur sveitarfélög til samanburðar. Í flestum tegundum fasteignagjalda erum við lægri og m.a. kemur í ljós, í uppsettu dæmi, að verulegur munur er hvað varðar atvinnuhúsnæði.

Landakaup og lóðarleiga

Um lóðarleiguna er rétt að árétta að bærinn hefur nú keypt land af ríkissjóði í þéttbýli Grundarfjarðar og innheimtir af því lóðarleigu í stað ríkisins áður. Í lóðarleigusamningum við ríkið var gjarnan ákvæði um að lóðarleiga skyldi vera ákveðin árleg fjárhæð, þó aldrei lægri en 5% af lóðarmati. Að jafnaði innheimti ríkið um 1% lóðarmats en dæmi voru þó um að lóðarleiga hjá viðsemjendum ríkisins væri hærri en það, auk þess sem dæmi eru um að ríkið hreinlega gleymdi að rukka lóðarleigu.

Grundarfjarðarbær keypti Grafarland (að mestu) árið 2001 og hefur á fjórum-fimm árum varið ríflega 60 millj. kr. í landakaup (á verðlagi í dag). Lóðarleiga hefur þó ekki hækkað, fyrr en nú, en hún hefur um árabil verið með því sem lægst gerist hjá sveitarfélögum, sem mörg hver hafa haft 2-2,5% lóðarleigu.

 

Þróun skatttekna

Um álagningu fasteignagjalda má segja það sama og um lóðarleiguna. Grundfirðingar hafa notið þess um árabil að greiða fasteignagjöld sem eru með þeim lægri á landinu. Samdráttur í útsvarstekjum, sem er stærsti tekjustofn sveitarfélaganna, síðustu árin hefur hins vegar sett verulegt strik í reikninginn. Bæjarstjórn tók ákvörðun um hækkun fasteignagjalda, sem aldrei er vinsælt, hvorki hjá þeim sem þá ákvörðun tekur né hjá þeim sem greiðir. Á meðfylgjandi töflum má sjá þróun álagningarstofns útsvars á árunum 1995-2004:

Breyting á álagningarstofni


Og breytingin er enn augljósari sé miðað við verðlagsþróun á sama tíma:

   

Breyting á álagningarstofni og vísitölu neysluverðs

 

Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga hefur verið í brennidepli undanfarin ár og þar hefur hallað verulega á sveitarfélögin í samskiptum við ríkið.

Þróun skatttekna okkar er hluti af því stóra máli. Rekstur Grundarfjarðarbæjar hefur á liðnum árum verið með því sem hagkvæmara gerist hjá sveitarfélögum. Reynt er að gæta aðhalds og fyrir allar stofnanir bæjarins hefur verið lagt að hagræða eftir föngum á árinu, grunnskólanum var ætlað að ná 3 millj. niður – frá óskum og uppreiknuðum launaliðum, bæjarskrifstofu um 500 þús., fækkað hefur verið starfsmönnum í áhaldahúsi og samhliða því fara fram útboð verkefna og mögulega þjónustusamningar. Farið hefur verið yfir kostnað við nefndir bæjarins og þar reynt að halda í og félagsleg aðstoð (heimaþjónusta) hefur verið falin Félags- og skólaþjónustu til endurskoðunar.

Undirrituð hefur þar að auki talað fyrir því að skoðað verði sérstaklega hvernig auka megi tekjur bæjarsjóðs. Nefna má t.d. að bærinn hefur á liðnum árum lagt milljónir í skipulag og gatnaframkvæmdir, sem nauðsynlegt er að byggist og skili þar með gatnagerðargjöldum í bæjarsjóð. Nýliðið íbúaþing Grundfirðinga gekk einmitt út á þetta, að ræða framtíðarmöguleika í atvinnuuppbyggingu og tækifæri byggðarlagsins til vaxtar. Vonandi verður Grundfirðingum ágengt með þau góðu áform og hugmyndir sem fram komu á íbúaþingi. Meira um það síðar.

 

Grundarfirði, 16. mars 2005,

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri