Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar A- og B-hluta sjóða fyrir árið 2017 var samþykkt á  fundi bæjarstjórnar 8. des. sl.  

·         Heildartekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar 973,5 m.kr. Laun eru áætluð 506,7 m.kr., önnur rekstrargjöld 331,4 m.kr. og afskriftir 49,3 m.kr. Rekstrarniðurstaða er því jákvæð um 85,6 m.kr. fyrir fjármagnsliði. Fjármagnsgjöld eru áætluð 68,7 m.kr., þannig að þegar tekið hefur verið tillit til þeirra er rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild jákvæð um 17,2 m.kr.

 

·         Í sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar kemur fram að veltufé frá rekstri er 104,7 m.kr. Þessi fjárhæð nýtist til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er talið að ráðast í á árinu 2017.

 

·         Ráðgert er að fjárfestingar nettó verði 87,8 m.kr., afborganir lána 104,8 m.kr. og að tekin verða ný lán að fjárhæð 60 m.kr. Gengið er á handbært fé um 27,9 m.kr. sem í upphafi árs er ráðgert að sé 94,7 m.kr. Handbært fé í árslok ársins 2017 er því áætlað 66,7 m.kr. gangi fjárhagáætlun ársins 2017 fram eins og ráðgert er.

 

·         Eins og fram hefur komið er ráðgert að verja 87,8 m.kr. í framkvæmdir. Helst er þar að nefna malbiksframkvæmdir, kaup á tölvubúnaði í skóla,  lagfæring á húsnæði grunnskólans, bætt aðgengi og girðing umhverfis sundlaug, nýtt gervigras á sparkvöllinn, endurbætur á leikskóla, áframhaldandi vinnu að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið, lagfæring á þaki íbúða eldri borgara að Hrannarstíg 18, plöntun í Paimpolgarð, lagfæring bæjargirðinga, tjaldstæðis, gangstétta og annarra  eigna sveitarfélagsins. Jafnframt verða keyptar nýjar klippur fyrir slökkviliðið í stað þeirra eldri, sem eru komnar til ára sinna. Tæki af þessum toga eykur til muna öryggi, þegar bregðast þarf við erfiðum aðstæðum á slysstað.

 

Meginmarkmið áætlunarinnar er að sinna vel allri grunnstarfsemi sveitarfélagsins og vinna að nauðsynlegu viðhaldi og framkvæmdum. Jafnframt er brýnt að lækka skuldir enn frekar en orðið er.

Áfram verður unnið að hagræðingu hinna mismunandi rekstrarþátta sveitarfélagsins og þar verður sérstaklega kallað eftir liðsinni forstöðumanna og starfsfólks bæjarins. Ljóst er að bestur árangur næst í þeim efnum ef allir starfsmenn vinna saman að því að reka samfélagið sitt á sem hagkvæmastan hátt. Takist að láta alla þætti ganga fram eins og áætlað er fyrir í fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar árið 2017 og einnig áranna 2018-2020 þá geta Grundfirðingar litið björtum augum til framtíðarinnar. Að lokum er öllu starfsfólki sem komið hefur að þessari vinnu þakkað fyrir vel unnin störf.

Þorsteinn Steinsson

bæjarstjóri