Síðastliðin fimm ár hefur í Grundarfirði verið starfrækt sérstakt verkefni þar sem unglingum á framhaldsskólaaldri er kennt eingöngu í fjarnámi Verkmenntaskólans á Akureyri. Þetta var brautryðjendaverk í hreinu fjarnámi, því hvergi annars staðar hafði hópi ungs fólks verið kennt með fjarnámi eingöngu.

 

Áður en fjarnámið kom til,  höfðu unglingar úr Grundarfirði þann eina kost að fara í burtu til að stunda framhaldsnám, með tilheyrandi kostnaði og álagi á unglinga og fjölskyldur.  Stærð byggðarlagsins gaf ekki tilefni til að setja upp sérstaka framhaldsdeild eins og gert hafði verið annars staðar. Því var leitað nýrra lausna.

 

Það varð úr að Menntamálaráðuneytið, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Fjölbrautaskóli Vesturlands og bæjarstjórn Grundarfjarðar tóku höndum saman  um að hrinda nýstárlegu verkefni í framkvæmd. Útbúið var fjarnámsver með tölvum, eina tölvu fyrir hvern nemanda, fyrst á jarðhæð íþróttahússins og síðar haustið 2001 flutti fjarnámið í glæsilegt húsnæði að Borgarbraut 16 við hlið bókasafnsins. Nemendur hafa mætt í skólann og notið liðsinnis umsjónarmanns sem hefur aðstoðað við námið eftir föngum.

 

Fjarnámið í Grundarfirði var útfært með þessum hætti því reynslan hafði sýnt að yngri nemendur ættu erfiðara með að aga sig og stunda námið sjálfir. Einnig var það veigamikill þáttur til að koma í veg fyrir félagslega einangrun að nemendur kæmu saman og væru ekki alltaf að vinna einir og sér. Einnig var hvatt til félagslegra samskipta við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

 

Fyrsta árið stunduðu sjö nemendur nám og síðan hafa nemendur verið á annan tuginn á hverjum vetri. Sumir hafa verið í eitt ár en aðrir lengur, nemendur hafa ýmist komið beint úr grunnskóla eða stundað nám í öðrum skólum  allt eftir áhuga og þörfum hvers og eins.  Námsframboð VMA er mjög fjölbreytt og hægt hefur verið að mæta þörfum nemenda á mörgum sviðum. 

 

Töluverð þróun hefur átt sér stað í námsefni og framsetningu námsefnis.  Sumir námsáfangar hafa líkst því sem gerðist í bréfaskóla á árum áður,  en aðrir nýta möguleika Netsins og nota sérstök kennsluumhverfi t.d. WebCT.

 

Í skólastarfi liggja margir möguleikar til umbóta samfara aukinni notkun tölvutækninnar,  margar af þeim aðferðum sem nú eru notaðar í fjarkennslunni mun hafa veruleg áhrif á skólastarf í framtíðinni.

 

Nýr Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem verður leiðandi í breyttum námsháttum með notkun upplýsingatækninnar tekur til starfa í haust.  Grundarfjarðarbær mun þá leggja niður starfsemi fjarnámsins.  Fjölbrautaskólinn mun nýta reynslu Grundfirðinga af fjarnámi, en þar er gert ráð fyrir einstaklingsmiðuðu námi og að kennt  verði bæði í staðbundnu námi og með fjarnámi. 

 

Fyrir Grundarfjörð hefur verið mjög ánægjulegt að taka með virkum hætti þátt í þróun skólastarfs.  Verkefnið hefur vakið athygli víða og aukið hróður bæjarfélagsins.  Grundfirðingar tóku á mjög jákvæðan þátt í þessu verkefni og sýndu að þeir eru óhræddir að takast á við breytingar og nýjungar.

 

Sigríður Finsen forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar og fyrrum umsjónarmaður fjarnámsins í Grundarfirði.