Frétt á heimasíðu Skessuhorns:

“Við héldum nokkra samráðsfundi fyrir jól í kjölfarið á úttekt sem gerð var á starfsemi skólans síðastliðin þrjú ár,” segir Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Fundirnir voru þrír talsins og haldnir með íbúum á svæðinu, sveitarstjórnarmönnum, foreldrum, nemendum, skólanefndarmönnum og starfsfólki skólans svo dæmi séu tekin. Þeir voru liður í því að marka stefnu skólans til framtíðar og ræða hvort og hvernig hann gæti verið leiðandi í starfi sínu. 

“Það sem kom einna sterkast fram á þessum fundum var að fólk vildi efla tengsl skólans við samfélagið hér í kring,” segir Guðbjörg. “Því höfum við ákveðið að hafa opinn dag þann 5. apríl og langar að fá fyrirtæki og stofnanir á svæðinu í lið með okkur. Það væri gaman að koma af stað samstarfsverkefnum og gera eitthvað sem kæmi fyrirtækjunum að gagni. Við höfum til dæmis látið okkur detta í hug að tengja saman starf leikskólanna og áfanga sem hér er kenndur um barnabækur.

Auk þess langar okkur að efla tengingu nemenda við dvalarheimilin á svæðinu. Svo gætu nemendur útbúið kynningarefni fyrir fyrirtæki, þýtt upplýsingar fyrir ferðaþjónustuaðila, gert kannanir á viðhorfum til ákveðinna mála og svo mætti lengi telja. Möguleikarnir eru endalausir,” segir Guðbjörg.