Fjölbrautaskóli Snæfellinga mun taka til starfa haustið 2004 og verður skólabyggingin staðsett við Grundargötu í Grundarfirði,  samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi.  Skólanum er ætlað að vera leiðandi í breyttum námsháttum með notkun upplýsingatækninnar.  Er áætlað að nemendur verði alls um 170 talsins, fyrstu tvö skólaárin verði í boði haustið 2004, þriðja árið bætist við haustið 2005 og það fjórða 2006. 

Undirbúningur að stofnun skólans hófst í apríl 2003.  Sumarið var notað til að þróa tillögur um hvernig skóli þetta yrði, hvaða kennsluhættir yrðu notaðir, hvernig skólastarf yrði skipulagt og hvernig skólabyggingin þyrfti að vera.  Komu um 50 aðilar að þeirri vinnu, þar á meðal fulltrúar sveitarstjórna á svæðinu, foreldra og verðandi nemenda, einnig sérfræðingar úr menntamálaráðuneytinu og öðrum skólum.  Susan Stuebing, erlendur ráðgjafi um þróun lærdómsumhverfis, leiddi vinnuna.

 

Þessari vinnu lauk í ágúst og eru arkitektar þegar langt komnir með að vinna fyrstu teikningar að skólahúsnæðinu.  Gert er ráð fyrir að starf skólameistara verði auglýst fyrir áramót og annarra starfsmanna á fyrstu mánuðum ársins 2004.  Skólameistari mun taka endanlega ákvörðun um hvaða námsbrautir verða í boði við skólann, en fyrirsjáanlegt er að hægt verði að bjóða upp á almenna braut, 2 stúdentsbrautir og nokkrar starfsnámsbrautir, með því að nýta fyrirkomulag dreifnáms.  Nemendur sem hafa áhuga á öðrum námsbrautum ættu síðan að geta tekið ákveðin grunnfög í staðbundnu námi við skólann og frekari áfanga í fjarnámi frá skólanum. 

 

Á heimasíðum sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi eru tenglar á heimasíðu skólans.  Þar er að finna upplýsingar um verkefnið, fréttir af framgangi þess og myndir úr starfinu.